Á sjúkrahús eftir hálkuslys við Geysi

Ferðamenn á Geysissvæðinu.
Ferðamenn á Geysissvæðinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tveir erlendir ferðamenn voru fluttir á sjúkrahús eftir að hafa dottið í hálku við Geysi í Haukadal í gær.

Valdimar Kristjánsson, yfirlandvörður á svæðinu, segir að sem betur fer sé það ekki daglegt brauð að sjúkrabílar komi og nái í slasaða ferðamenn.  

Hann segir að flughált sé á svæðinu og að mikill fjöldi fólks fari þar um og sé misjafnlega útbúið. Hann hvetur fólk til að nota mannbrodda ef það ætlar að skoða þessa vinsælu ferðamannastaði.

Neðri stígnum að Gullfossi var lokað fyrr í mánuðinum vegna frosts og hálku. „Það er búið að vera frost og það er frost í kortunum áfram,” segir Valdimar og tekur fram að hálkuhættan sé mikil vegna rakans sem myndast bæði við Gullfoss og Geysi.

Ferðamenn við Gullfoss á vetrardegi.
Ferðamenn við Gullfoss á vetrardegi. mbl.is/Golli

„Það eru hálkuskilti úti um allt þar sem við vörum við. Svo mælum við með að fólk noti mannbrodda en við náum aldrei að koma í veg fyrir allar hættur,“ bætir hann við og nefnir að göngustígar séu reglulega sandbornir og saltaðir. 

Valdimar segir umferðina um svæðið hafa aukist frá því sem áður var á þessum árstíma. „Þetta er orðið eins og var á sumardegi fyrir þremur til fjórum árum.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka