Bílar fastir á Holtavörðuheiði

Á vef Vegagerðarinnar má sjá að nokkrum vegum á Vestur- …
Á vef Vegagerðarinnar má sjá að nokkrum vegum á Vestur- og Norðurlandi hefur verið lokað vegna ófærðar. Skjáskot/Vegagerðin

Nokkur fjöldi bíla situr fastur vegna ófærðar á Holtavörðuheiði og eru björgunarsveitir komnar til aðstoðar. Að minnsta kosti sjö flutningabílar og nokkrir fólksbílar til viðbótar komast hvorki lönd né strönd vegna ófærðarinnar. Tveir flutningabílar eru fastir hlið við hlið efst á heiðinni og er hún því með öllu ófær. Vegurinn um heiðina er nú lokaður. Liðsmenn fjögurra björgunarsveita hafa verið kallaðir út til aðstoðar.

Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám og kanna aðstæður á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað.

„Það er búið að vera kolvitlaust veður í nótt,“ segir Gunnar Örn Jakobsson, formaður Björgunarsveitarinnar Húna á Hvammstanga, í samtali við mbl.is. Hann segir tvo bíla frá sinni sveit á heiðinni að ferja niður fólk sem það vill en margir ætla þó að freista þess að bíða veðrið af sér. Gunnar segir að veðrið sé enn mjög slæmt. „Það verður örugglega þónokkuð í það að heiðin opnist því það eru tveir flutningabílar stopp hlið við hlið og þeir loka alveg veginum og það er búið að fenna að þeim.“

Auk björgunarsveitarmanna frá Hvammstanga eru björgunarsveitarmenn frá þremur sveitum í Borgarfirði; Oki, Brák og Heiðari, nú einnig á leið á heiðina til aðstoðar. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að síðasta sólarhringinn hafi verið töluvert af útköllum vegna ófærðar, aðallega á Norður- og Vesturlandi.

Vegum lokað víðar

Siglufjarðarvegi og Ólafsfjarðarmúla var lokað í gærkvöldi vegna snjóflóða og þá var veginum um Súðavíkurhlíð lokað á miðnætti. 

Það er hálka og skafrenningur á Sandskeiði, Hellisheiði og á Lyngdalsheiði og þæfingsfærð á Mosfellsheiði. Hálka er mjög víða á Suðurlandi. 

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja á vegum og ófært á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Fróðárheiði. Mjög hvasst er á sunnanverðu Snæfellsnesi. 

Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum og slæmt veður. Einnig er ófært á Klettshálsi og Hjallahálsi. Þungfært er í Ísafjarðardjúpi á Drangsnesvegi og á Innstrandavegi.  Á sunnanverðum Vestfjörðum er snjóþekja eða hálka og skafrenningur á fjallvegum.

Á Norðurlandi vestra er snjóþekja eða hálka á vegum og lokað yfir Þverárfjall. Þæfingsfærð er í Skagafirði og á Siglufjarðarvegi að Ketilási. Verið er að kanna ástand á Siglufjarðarvegi og Ólafsfjarðarvegi með tilliti til snjóflóðahættu. Norðaustanlands er hálka eða snjóþekja og töluverð snjókoma á Melrakkasléttu og Langanesi. Þungfært er í Hófaskarði. 

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Austurlandi og hálka eða hálkublettir með suðausturströndinni frá Höfn og áfram suður. 

Hér má sjá yfirlit Vegagerðarinnar um færð og aðstæður á vegum.

Á milli klukkan 08 og 10 lagast veður mikið á Vestfjörðum og Vesturlandi, samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar. Hins vegar snjóar austanlands um tíma framan af degi og útlit er fyrir hríðarbyl í Öræfum frá hádegi. Jafnframt hvessir mjög á milli kl. 12 og 13 og líkur er á mjög snörpum byljum, allt að 40-45 m/s í hviðum, einkum á kaflanum frá  Skaftafelli austur fyrir Svínafell. Lægir ekki að gagni fyrr en um nóttina.    

Veðurvefur mbl.is.

Ófærð á Holtavörðuheiði. Myndin er úr safni.
Ófærð á Holtavörðuheiði. Myndin er úr safni. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert