Stefnt er á að skila skýrslu með tillögum um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla fyrir áramót.
Að sögn Björgvins Guðmundssonar, formanns fimm manna nefndar sem annast skýrslugerðina, liggja tillögur nefndarinnar fyrir en ekki er búið að ganga frá skýrslunni.
Skýrslan verður í framhaldinu afhent mennta- og menningarmálaráðuneytinu, sem tekur ákvörðun um framhaldið.
Við vinnslu skýrslunnar hafa nefndarmenn skoðað rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi, í nágrannalöndunum og annars staðar í Evrópu. Einnig hafa þeir kallað eftir hugmyndum frá fjölmiðlunum sjálfum um hvernig hægt væri að bæta þeirra rekstur.
Björgvin segir það fyrst og fremst pólitíska ákvörðun hvað verður gert við skýrsluna en ef hægt sé að bæta rekstrarskilyrði fjölmiðla með einföldum aðgerðum sé rétt að gera það eins og með flest önnur fyrirtæki.
„Rekstur fjölmiðla verður að stórum hluta að vera sjálfbær eins og rekstur annarra fyrirtækja. Það er engin ein töfralausn á vanda þeirra.“
Illugi Gunnarsson, þáverandi mennta- og menningarmálamálaráðherra, skipaði nefndina í lok síðasta árs. Skýrslan átti að koma út í sumar en ýmislegt hefur tafið útgáfu hennar, að sögn Björgvins. Fyrst voru ráðherraskipti og svo þegar nefndin kallaði eftir upplýsingum tafðist að fá þær. Sumarfrí komu í framhaldinu og að því loknu urðu stjórnarslit.
Að auki segir Björgin að vinnan við skýrsluna sé unnin í frítíma nefndarmanna og hvað hann sjálfan varðar hafi vinnan við hana tafist sökum annarra verkefna.