„Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig.“ Þetta segir Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri og bankamaður, í færslu á Facebook og deilir með henni mynd af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir, varaformanni Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug er ein þeirra ríflega 300 kvenna í stjórnmálum sem skrifað hafa undir áskorun þess efnis að karlar taki ábyrgð á kynbundnu ofbeldi og að stjórnmálaflokkarnir taki af festu á málinu. Hún var ein af þremur gestum Kastljóss í kvöld. Í þættinum greindi hún frá því að hún hefði fengið kynferðislegar athugasemdir í starfi sínu sem stjórnmálamaður. „Þá er sagt að ég sé ekki jafn hæfileikarík og staðan gefi til kynna og maður hljóti að hafa sofið hjá þeim sem völdin hafa til að hafa komist þangað sem maður er,“ sagði húm meðal annars.
Óljóst er hvað Ragnar á við með stöðuuppfærslu sinni en hann bendir á að myndina hafi Áslaug notað sem „prófílmynd“ á Facebook. Fjölmargir hafa spurt Ragnar hvað hann eigi við með stöðuuppfærslunni. Þeirra á meðal er Áslaug Arna sjálf. Hann svarar því til að kannski eigi hún að leita ráðgjafar almannatengils. „Vil hvetja þig til að hugsa um þá ímynd sem þú vilt hafa.“
Ragnari er í athugasemdum bent á að um sé að ræða mynd af ungri konu, sem ekkert sé athugavert við. „Það að gefa í skyn að Áslaug sé að bjóða kynferðislegri áreitni heim með því að birta mynd af sér sem þér finnst ekki viðeigandi að þátttakendur í stjórnmálum noti til að kynna sig sýnir svart á hvítu að þú ert vandamálið Ragnar, ekki hún,“ skrifar Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. Ragnar vísar ábyrgð á þessari túlkun Þórðar á bug. „Þú lest á milli línanna, prjónar við og vilt gera mig ábyrgan fyrir því.“
Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður, segir að ummæli Ragnars og aðdróttanir hans séu til skammar og segi meira um hann en Áslaugu. „Þetta er síðan sem hún notar m.a. í samskiptum við vini og fjölskyldu, síða sem hún ræður yfir og má að sjálfsögðu hafa eins og henni sýnist.“ Ragnar kannast ekki við að hafa látið aðdróttanir falla.