Ekki er útlit fyrir að veðrið sem nú ríkir á landinu gangi niður fyrr en á laugardag. Þetta kemur fram í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Þar segir að útlit sé fyrir hvassa norðanátt næstu daga.
Þessu fylgi snjókoma eða él norðan- og austanlands en varasamir vindstrengir á sunnanverðu landinu. „Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám og kanna aðstæður á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað.“
Veðrið gengur niður „svo um munar á laugardaginn, fyrst um landið vestanvert“, segir á vef Veðurstofunnar.
Horfur næsta sólarhringinn: „Norðanátt, víða 13-18 m/s, en 20-25 suðaustantil á landinu fram undir morgun. Norðaustan 15-23 síðdegis, hvassast um landið suðaustanvert. Snjókoma eða él norðan- og austanlands, en yfirleitt þurrt sunnan heiða. Frost 0 til 5 stig.“