Verður stofnun miðhálendisþjóðgarðs að veruleika? Það er spurning sem næsta ríkisstjórn og umhverfisráðherra verða að taka afstöðu til því boltinn er hjá þeim. Skýrsluhöfundar sem sátu í nefnd sem greindu forsendur fyrir því að stofna miðhálendisþjóðgarð og mbl.is ræddi við eru vongóðir um að slíkur þjóðgarður muni líta dagsins ljós. Hins vegar á eftir að móta hugmyndina betur og vinna að enn frekari stefnumótun sem mun byggja á nokkuð ítarlegum grunni fyrrnefndrar skýrslu.
„Stofnun miðhálendisþjóðgarðs er fullkomlega gerleg. Það eru allar forsendur fyrir hendi. Það yrðu stórkostlegar framfarir ef Alþingi myndi samþykkja að stofna slíkan þjóðgarð. Það yrði til dæmis auðveldara að vernda náttúruna, gera áætlanir um stjórnun og efnahagslegur ávinningur yrði af svæðinu,“ segir Árni Finnsson um miðhálendisþjóðgarð. Hann sat í nefnd sem umhverfisráðherra skipaði til að greina forsendur fyrir miðhálendisþjóðgarði sem skilaði af sér skýrslu í síðasta mánuði. Hann var tilnefndur af frjálsum félagasamtökum á sviði umhverfismála.
Skýrslan er yfirgripsmikil þar sem hin ýmsu sjónarmið eru dregin upp. Skýrslan felur ekki í sér neina niðurstöðu heldur eru dregnar upp nokkrar mögulegar sviðsmyndir og bent á hina ýmsu valkosti sem eru í stöðunni. Vatnajökulsþjóðgarður er til að mynda skoðaður og farið yfir þann lærdóm sem má draga af stofnun hans og rekstri.
„Það er ljóst að það þarf að vernda þessa náttúru hvort sem það verður í þjóðgarði eða ekki í framtíðinni. Með því að hafa þjóðgarð þá tekur skipulagið til allra þessara svæða,“ segir Árni og bætir við: „Það sem er gott við þetta er að hugmyndin er komin á blað hjá stjórnvöldum.“
Hann segir að boltinn liggi núna hjá næsta ráðherra og ríkisstjórn Íslands sem verði að skoða þessa punkta og taka ákvörðun. Hann segir margt verði að skoða og taka tillit til eins og efnahagslegra þátta til dæmis fjármögnun garðsins og stýrikerfi. Í skýrslunni er gert ráð fyrir samskonar kerfi og er við lýði í Vatnajökulsþjóðgarði, að sveitarstjórn á tilheyrandi svæðum hafi ríka aðkomu að stjórnun þjóðgarðsins á sínu svæði.
Árni segir að tvímælalaust verði að hafa gjaldtöku á svæðinu en bendir á að í skýrslunni er ekki tekin afstaða til þess. „Ferðamenn verða að borga fyrir þá þjónustu sem þeir fá. Hálendið er auðlind sem ferðamenn nýta,“ segir Árni. Slíkt þyrfti að gera með skipulagðari og heildrænni hætti en að rukka til dæmis fyrir bílastæði eins og gert er á Þingvöllum til að greiða fyrir uppbygginguna á því svæði, segir Árni.
Árni segir skýrsluna vera skref í rétta átt og er mjög ánægður með vinnu hópsins og tekur sérstaklega fram að formaður nefndarinnar hafi stýrt vinnu hópsins vel.
„Þetta er ekki skýrsla sem skilar niðurstöðu heldur er safn upplýsinga og grunnhugmynda sem mögulega verður hægt byggja á. Það er umfangsmikið að stofna svona stóran þjóðgarð og inn í þetta spila margar skipulagsgerðir, aðalskipulag sveitarfélaga, svæðisskipulag miðhálendisins, kerfisáætlun Landsnets, rammaáætlun of.l. Þá er ýmis vinna enn í gangi sem skiptir máli t.d. skilgreining víðerna, hefði verið betra að hafa þá skilgreiningu skýra í vinnu nefndarinnar. Þetta er klárlega skref í rétta átt og fínt gagn til frekari umræðu og vinnu áður en þetta verður að veruleika,“ segir Dagbjört Jónsdóttir um skýrsluna. Hún sat í nefndinni og var tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga en hún er sveitarstjóri Þingeyjasveitar.
Í skýrslunni kemur fram að tryggja verði að óbeinn eignarréttur sem felst í veiði og búfjárbeit innan miðhálendisins þó stofnaður verði þjóðgarður. Fundir voru haldnir með sveitarfélögum sem eiga land innan mögulegs miðhálendisþjóðarðs. „Fulltrúar sveitarfélaganna voru frekar jákvæðir, töldu mikilvægt að koma skipulagi á umferð ferðamanna um miðhálendið með einhverjum hætti en einnig að tryggja samgöngur og raforkuflutning. Það er mjög mikilvægt að eiga samráð og samvinnu við heimamenn“ segir Dagbjört spurð um viðhorf sveitarfélaganna til þjóðgarðs. Í því samhengi nefnir hún Vatnajökulsþjóðgarð þar sem sveitarfélögin eiga fulltrúa í svæðisráðum.
Í skýrslunni er einnig rætt um raforkuflutning sem er nauðsynlegur fyrir atvinnustarfsemi og þróun byggðar og tekið fram að þjóðgarður mætti ekki koma í veg fyrir orkuflutning. „Mikilvægt að horft sé til flokkunar (IUCN) við stofnun þjóðgarðs þar sem svæðið í heild er flokkað niður í minni svæði þar sem mismunandi reglur geta gilt um framkvæmdir á ákveðnum stöðum, virkjanir, vegaframkvæmdir, raflínur o.s.frv..“ Þetta kemur fram í skýrslunni.
Dagbjört bendir á að íbúar á Norðaustur- og Austurlandi búa við takmarkað afhendingaöryggi raforku. „Þetta er mikilvægt mál sem menn hafa áhyggjur af, atvinnuuppbygging er ákveðnum takmörkunum háð vegna þess að afhendingaröryggi og flutningsgeta raforku er verulega ábótavant á þessum svæðum. Dæmi er um að fyrirtæki þurfa að treysta á díselrafstöðvar við framleiðslu sína vegna þessa, það er ekki ákjósanleg staða og ákveðið áhyggjuefni um leið og við viljum leggja okkur fram við að vera umhverfisvæn á allan hátt.” segir Dagbjört og bendir á mikilvægi þess að styrkja byggðalínuna en umdeilt er hvar hún eigi að liggja.
Í skýrslunni eru fjallað um nokkrar sviðsmyndir fyrir stofnun þjóðgarðs og frekari verndun innan miðhálendisins.Þetta er umfangsmikið verkefni og mikilvægt að vanda alla vinnu og undirbúning að sögn Dagbjartar. „Þessar sviðsmyndir sem og annað sem fram kemur í skýrslunni er ætlað að vera grundvöllur fyrir upplýsta og áframhaldandi umræðu og ákvarðanatöku um stofnun miðhálendisþjóðgarð“
Dagbjört reiknar með að stofnun miðhálendisgarðsins verði að veruleika í framtíðinni en segir alls óvíst með hvaða hætti hann verður en ljóst að mikil vinna er framundan.