Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um líkamsárás við Melgerði á tólfta tímanum í gærkvöldi. Ráðist hafði verið á mann á sjötugsaldri er hann kom að mönnum inni á heimili sínu. Þrír menn voru handteknir skammt frá árásarstaðnum og voru þeir bæði blóðugir og með muni sem taldir eru vera þýfi að því er segir í dagbók lögreglu.
Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu, en þeir eru grunaðir um líkamsárás, húsbrot og þjófnað.
Ekki var hins vegar upp gefið í dagbók lögreglu hvort meiðsl húsráðandans hefðu verið alvarleg.
Lögregla handtók síðan par á heimili í vesturborginni um eittleytið í nótt. Er það grunað um vörslu fíkniefna, brot á vopnalögum og fleiri brot. Var parið vistað í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.
Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu við Kópavogsbrautina á ellefta tímanum í gærkvöldi. Leigubílstjóri, sem var kona, hafði tilkynnt um þrjá menn sem hefðu áreitt sig og að því loknu yfirgefið leigubílinn án þess að greiða ökugjaldið.