„Mynd segir meira en þúsund orð“

Ragnar Önundarson.
Ragnar Önundarson. Ljósmynd/Aðsend

„Mynd segir meira en þúsund orð. Stundum duga orðin ekki til, maður fær einhverja tilfinningu,“ segir Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri, inntur eftir því hvað hann meinti nákvæmlega þegar hann gagnrýndi prófílmynd Áslaugar Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur, ritara og starfandi vara­for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins, á facebooksíðu sinni í gær.

Ragnar vildi ekki tjá sig frekar um myndina. Hann benti á að nú væri Áslaug Arna búin að skipta um prófílmynd á Facebook. [Innskot blaðamanns: Áslaug Arna notaði ekki umrædda mynd sem prófílmynd heldur hefur hún haft núverandi prófílmynd í nokkra mánuði.]

„Mér líst vel á þá mynd og tel hana samrýmast vel persónuleika hennar, sem hin gerði ekki. Nýja myndin lýsir ábyrgð og alvöru ungs stjórnmálamanns eins og Áslaug Arna er góður fulltrúi fyrir. Hin myndin var ekki í samræmi við hana. Ég sem flokksbundinn sjálfstæðismaður hef áhyggjur af því að þessi mynd hafi ekki hjálpað,“ segir Ragnar. Hann segir nýju myndina betri fyrir flokkinn hennar og hana sjálfa. 

Spurður hvort hann þekki Áslaugu Örnu segist hann hafa fylgst vel með henni í stjórnmálunum og segist binda vonir við hana sem fulltrúa nýrrar kynslóðar ungra sjálfstæðismanna. 

„Ég hef ekkert við hana að athuga,“ segir hann spurður hvernig hann svari gagnrýni sem hann hafi fengið eftir færsluna sem hann birti. „Tjáningarfrelsi er svona. Maður viðhefur einhver ummæli sem maður hefur rétt á að viðhafa og aðrir eiga rétt á að tjá sig um þau. Öll ummæli dæma sig alltaf sjálf, ekki bara mín heldur öll ummæli,“ segir Ragnar.

Hann segir viðbrögðin við færslunni lýsa kröfunni um pólitíska rétthugsun og ritskoðun. „Í dag má fólk ekki tjá sig án þess að leiða hugann að því hvað öðrum finnst. Þau viðbrögð eru illa samrýmaleg hugmyndum um lýðræði og tjáningarfrelsi,“ segir Ragnar og bendir á að ein skoðun eigi ekki að vera ráðandi fremur en önnur.

„Það var ekki mikið efni í honum svo ég kommentera ekki á það,“ segir Ragnar spurður hvort hann hafi horft á Kastljósþáttinn í gær þar sem þrjár stjórnmálakonur, þar á meðal Áslaug Arna, ræddu um valdbeitingu karlmanna í íslenskri pólitík og sögur af kynferðislegri áreitni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert