Staðan á íbúðamarkaði aðkallandi á Vesturlandi

Búðardalur. Almennt eru Vestlendingar hamingjusamir, en unga fólkið er þó …
Búðardalur. Almennt eru Vestlendingar hamingjusamir, en unga fólkið er þó óhamingjusamara en þeir sem eldri eru. mbl.is/Sigurður Bogi

Staðan á íbúðamarkaði er sá þáttur sem er hvað mest aðkallandi varðandi búsetuskilyrði á Vesturlandi að mati íbúa í landshlutanum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslunni Íbúakönnun á Vesturlandi: Staða og mikilvægi búsetuskilyrða, sem nýlega kom út.

Um er að ræða könnun þar sem íbúar Vesturlands eru beðnir um að taka afstöðu til stöðu og mikilvægi margra mikilvægustu búsetuþátta hvers samfélags. Hefur könnunin verið gerð þriðja hvert ár og er þetta í fimmta skiptið sem hún er framkvæmd.  

Samkvæmt könnuninni er staðan á íbúðamarkaði mest aðkallandi á öllum svæðum nema í Dölunum, en á því svæði er það vöruverðið sem er hvað mestur þyrnir í augum íbúa.

Ýmsar sérgreiningar voru gerðar í úrvinnslu könnunarinnar að þessu sinni,  m.a. varðandi íbúðamarkaðinn, stöðu eldri borgara og útlendinga. Þá er í fyrsta skipti reynt að setja fram forgangslista yfir þau verkefni sem vert er að vinna á hverju svæði Vesturlands fyrir sig, grundvallaðan á niðurstöðum könnunarinnar. Þá var í fyrsta skipti spurt á þremur tungumálum til að ná betur til útlendinga á Vesturlandi.

Loks voru þátttakendur í fyrsta skipti spurðir um hamingju sína, en sú spurning byggir á reynslu erlendra fræðimanna á rannsóknum á hamingju fólks. Virðast Vestlendingar heilt yfir vera allnokkuð hamingjusamir þar sem meðaleinkunnin er í kringum 8 á skala sem nær upp í tíu. Unga fólkið á aldrinum 18-24 virðist þó vera óhamingjusamara en þeir sem eldri eru og er meðaleinkunn þar rúmir 7.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert