„Dómgreindin er til umhugsunar“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Eggert

Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri, hefur skrifað Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins, opið bréf á Facebook þar sem hann ræðir m.a. áfram um prófílmynd hennar í samhengi við ásýnd Sjálfstæðisflokksins. Þar segir hann að myndin hafi ekki verið aðalatriðið heldur sé dómgreindin til umhugsunar.

Það vakti töluverða athygli í vikunni þegar Ragnar gerði athugasemd við ljósmynd sem Áslaug hafði valið sem prófílmynd á samskiptavefnum, en Ragnari þótti myndin vera óviðeigandi fyrir stjórnmálamann og einn af æðstu mönnum Sjálfstæðisflokksins.

„Þessi unga kona var í sjónvarpi í kvöld að ræða um kynferðislega áreitni við konur í stjórnmálum. Meðfylgjandi mynd hefur hún notað sem ,,prófílmynd” á FB. Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig,“ skrifaði Ragnar. 

Kornung forystukona að sýna kynveruna

Í bréfinu segist Ragnar hafa fengið óþægindatilfinningu þegar Áslaug birti umrædda prófílmynd fyrst. Hann bendir á, að Áslaug sé opinber persóna sem geti ekki haft neina „prívatsíðu“ opna öllum. Ragnar segir að með myndinni „var kornung forystukona Sjstfl að sýna á sér hlið sem allir hafa, kynveruna, en sem opinberar persónur þurfa að stilla sig um að flagga. Unggæðingslegt alvöruleysi birtist á ný í æðstu forystu flokksins. Dómgreindin er til umhugsunar. Þetta er kjarni málsins. Ekki myndin, þó hún hafi afhjúpað alvöruleysið.“

Ragnar ræðir í þessu samhengi um stöðu Sjálfstæðisflokksins. Segist m.a. sakna flokksins sem hann gekk í fyrir nær hálfri öld. Hann rifjar upp þær breytingar sem hafi orðið á flokknum á undanförnum áratugum. Flokkurinn hafi ekki sömu breidd í skoðunum sem hann hafði, tekið upp nýfrjálshyggju sem hafi átt þátt í efnhagshruninu 2008 og segir að flokkurinn hafi þráast við að verða aftur þessi breiði og mannúðlegi hægri flokkur sem hann hafi verið.

„Ég hef í nokkur ár haldið þeirri skoðun á lofti að þetta geti ekki lagast á meðan æðsta forysta flokksins er falin manni sem var sjálfur umsvifamikill í fjárfestingum og lántökum fyrir hrun og tengist miklum útlánatöpum,“ skrifar Ragnar og vísar þar með til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.

Skynjar sterkt ákall eftir meiri alvöru og ábyrgð í stjórnmálum

Ragnar segist skynja sterkt, almennt ákall eftir meiri alvöru og ábyrgð í stjórnmálum.

„Sem þriðja æðsta manni flokks okkar er þér ætlað að vera uppbyggilegur og gagnrýninn náinn samstarfsmaður formannsins. Flokkshollusta er betri en foringjahollusta. Við þurfum engar ,,elítur”, ekki nein ,,skjallbandalög”. Við þurfum aðhald og við þurfum fólk með fæturna á jörðinni og bein í nefinu,“ skrifar Ragnar.

Ragnar Önundarson.
Ragnar Önundarson.

Hann segir ennfremur, að Áslaug hafi mikinn áhuga á málum sem ungliðarnir í flokknum eltist við „vegna nýfrjálshyggju-þráhyggjunnar“.

„Þar á ég við kröfuna um vínsölu í matvöruverslunum. Það endurspeglar unggæðingslegt alvöruleysi, sem lagast þó vonandi með aldri og reynslu, en hefur samt skert traust flokksins í samtímanum. Reyndu frekar að hlusta eftir sjónarmiðum launafólks, aldraðra og öryrkja, sem studdu Sjálfstæðisflokkinn á árum áður. Það er mikilvægt fyrir þig að umgangast ekki bara vini, félaga og já-bræður í yngri deildinni.

Að síðustu minni ég á að ,,Þórðarnir” munu væntanlega halda áfram að ,,gleðjast” yfir einhverju í þessu bréfi. Láttu það ekki villa þér sýn, þeir eru ekki samflokksmenn okkar,“ segir Ragnar að lokum og óskar Áslaugu góðs gengis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka