Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir í miðborg Reykjavíkur í gær vegna gruns um að hafa veist að fjögurra ára dreng. Barnið sat í aftursæti bíls sem móðir hans ók er árásin átti sér stað.
Vísir greindi frá málinu í morgun.
Í samtali við mbl.is segir Guðmundur Pétur Guðmundsson lögreglufulltrúi að mennirnir hafi verið í mjög annarlegu ástandi og sýnt mótspyrnu við handtöku skömmu eftir að árásin átti sér stað. Alls hafi um átta lögreglumenn tekið þátt í aðgerðum vegna málsins, m.a. við leit að mönnunum og handtöku þeirra.
Málavextir eru þeir að konan beið í bíl sínum á rauðu ljósi á gatnamótum Laugavegar og Snorrabrautar laust fyrir klukkan 18 í gær. Tveir menn gengu að bílnum og annar þeirra reif upp hurð hans. Konan sagði honum að loka og koma sér í burtu. Hann gerði það en skömmu síðar áttaði konan sig á því að hin hurð bílsins hafði einnig verið opnuð og að sonur hennar sat blóðugur í aftursætinu. Svo virtist sem hann hefði verið sleginn í andlitið og að sögn Guðmundar Péturs blæddi m.a. úr nefi hans.
Konan sá ekki þegar veist var að barninu þar sem hún einbeitti sér að því að koma manninum sem rykkti upp hurðinni frá bílnum, að sögn Guðmundar.
Guðmundur Pétur segir ekkert á þessari stundu benda til þess að mæðginin og mennirnir tveir tengist. Þeir verða yfirheyrðir síðar í dag.
Í frétt Vísis segir að drengurinn hafi ekki slasast alvarlega en að hann hafi orðið fyrir miku áfalli.