Fráfarandi stjórn Pressunnar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem samskipti hennar við forsvarsmenn Fjárfestafélagsins Dalsins eru rakin. Í henni er vísað á bug þeim ávirðingum sem bornar voru á Björn Inga Hrafnsson og aðra fráfarandi úr stjórn Pressunnar. Ný stjórn Pressunnar er í yfirlýsingunni vænd um að halda röngum upplýsingum að fjölmiðlum.
Fyrr í kvöld kom fram í yfirlýsingu nýrrar stjórnar að meðlimir hennar hefðu sætt hótunum af hendi Björns Inga og að söluandvirði eigna Pressunnar, sem Frjáls fjölmiðlun keypti í september, hefði verið nýtt til að leysa Björn Inga undan þeim skuldum sem hann hafi verið í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Kröfuhöfum hafi þannig verið mismunað.
Forsaga málsins er rakin í ítarlegri yfirlýsingu frá fráfarandi stjórn þar sem því er haldið fram að Dalurinn, stærsti hluthafi Pressunnar, hafi lengi ætlað að knýja félagið í þrot. „Það er hins vegar mikill misskilningur að kröfuhöfum Pressunnar hafi verið mismunað með því að Frjáls fjölmiðlun hafi tekið yfir einstakar kröfur. Að sjálfsögðu gat það félag sem kaupandi haft um það að segja, hvaða kröfur væru teknar yfir og hverjar ekki,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
Á Facebook beinir Björn Ingi þeim tilmælum til þeirra sem horfðu á sjónvarpsfréttir RÚV í kvöld, sem fyrst fjallaði um málið, „að ekki er skynsamlegt að leggja of mikinn trúnað á spunafréttir sem settar eru fram í viðskiptastríði“. Færsluna ritar hann undir fyrirsögninni „Öll vanskil þurrkuð upp“.
Með þeim orðum deilir hann tölvupósti frá 10. apríl sem er sagður vera frá Árna Harðarsyni, eiganda Dalsins. Í þeim pósti, sem sagður er stílaður á embætti tollstjóra, kemur fram að hlutafjáraukningu Pressunnar sé að ljúka og að öll vanskil við tollstjóra verði „þurrkuð upp“ á næstu fimm mánuðum. „Afsakaðu hvað þetta hefur dregist og bestu þakkir fyrir þolinmæðina. kveðja, Árni Harðarson“.
Björn segir að í kvöld hafi ný stjórn Pressunnar, sem skipuð sé að kröfu Árna, lýst yfir miklum áhyggjum af „þessum sömu opinberu skuldum“. „Kannski ætti hún að snúa sér beint að Árna og spyrja, hvort hann hafi ekki örugglega staðið við þessa yfirlýsingu til Tollstjóra?“ segir Björn en forsögu málsins, frá sjónarhóli fráfarandi stjórnar, er lýst í löngu máli hér að neðan.
Síðasta hálfa árið eða svo hafa reglulega birst fréttir í fjölmiðlum af málefnum Pressunnar ehf. Er það fullkomlega eðlilegt enda hefur mikið gengið á hjá félaginu, bæði hvað varðar rekstur þess og eignarhald. Í flestum þessara frétta hefur hins vegar að miklu leyti verið sagt rangt frá, væntanlega á grundvelli rangra upplýsinga frá heimildamönnum í ákveðnum tilgangi.
Stjórn Pressunnar ákvað fyrir nokkru að hafa ekki frumkvæði að fréttaflutningi um félagið og tjá sig sem minnst um málefni þess enda var staðan viðkvæm. Við það hefur stjórnin staðið en hefur þó nokkrum sinnum haft samband við blaðamenn og bent á rangfærslur sem fram hafa komið.
Að loknum hluthafafundi nú í dag hafa enn á ný birst fréttir með röngum upplýsingum um félagið, bæði voru eldri rangfærslur endurteknar auk þess sem nýjum villum var bætt við. Af þeim sökum telur fráfarandi stjórn Pressunnar nú rétt að leiðrétta opinberlega þessar villur og lýsa í leiðinni í grófum dráttum þeirri skrautlegu atburðarás sem leiddi að lokum til þess að Pressan seldi stóran hluta eigna sinna til Frjálsrar fjölmiðlunar.
Helstu atriði
Því hefur ítrekað verið haldið fram í fjölmiðlum síðustu mánuði að Fjárfestingafélagið Dalurinn („Dalurinn“) hafi fyrst eignast stóran hlut í Pressunni í lok ágúst 2017 með umbreytingu lána í hlutafé. Það er ekki rétt, Dalurinn keypti hluti í Pressunni í janúar 2017 og varð þá 88,38% eigandi í félaginu. Var það gert í kjölfar skoðunar óháðs endurskoðanda á fjárhag félagsins.
Um svipað leyti stýrði Dalurinn að eigin ósk söfnun fleiri fjárfesta í stóra hlutafjáraukningu Pressunnar. Í apríl tilkynnti Pressan í fjölmiðlum, að frumkvæði forsvarsmanna Dalsins, að hlutafjáraukningin hefði gengið eftir.
Í þeirri tilkynningu kom jafnframt fram að kosin hefði verið ný stjórn Pressunnar og voru nafngreindir fimm einstaklingar sem myndu þaðan í frá stýra félaginu. Fyrrum stjórnendur, þeir Björn Ingi Hrafnsson og Arnar Ægisson, myndu stíga til hliðar bæði úr stjórn og framkvæmdastjórn. Nýr framkvæmdastjóri skyldi taka við Pressunni.
Á sama tíma tilkynntu forsvarsmenn Dalsins tollstjóra að öll opinber gjöld Pressunnar yrðu „þurrkuð upp“ á næstunni samkvæmt greiðsluáætlun sem forsvarsmenn Dalsins sömdu um við tollstjóra fyrir hönd Pressunnar.
Ný stjórn, en samt ekki
Við tók undarlegt ástand í rekstri Pressunnar. Björn Ingi og Arnar stigu til hliðar og Karl Steinar Óskarsson hóf störf sem framkvæmdastjóri. Nýja stjórnin virðist hins vegar aldrei hafa komið saman til að ákveða næstu skref. Pressuna rak því áfram í reiðileysi næstu vikur, án stjórnar og stefnu.
Þegar fram í sótti virðist sem forsvarsmenn Dalsins hafi farið að hugsa upp leiðir til að draga hina tilkynntu hlutafjáraukningu til baka. Þeir voru komnir með annað plan.
Í byrjun maí gerði Pressan tvo undarlega löggerninga. Á þeim tíma var búið að tilkynna um nýja stjórn í fjölmiðlum og semja um starfslok Björns Inga og Arnars. Þeir voru þó ennþá formlega skráðir hjá fyrirtækjaskrá sem stjórnarmenn Pressunnar og þurftu því að undirrita pappírana fyrir hönd Pressunnar. Á þeim tíma vissu þeir ekki annað en að fyrirhuguð hlutafjáraukning myndi ganga eftir.
Þann 10. maí létu forsvarsmenn Dalsins lögmann sinn útbúa sameiginlegt riftunarbréf vegna riftunar á kaupum Pressunnar á Útgáfufélaginu Birtingi („Birtingur“), sem höfðu átt sér stað um hálfu ári fyrr. Við undirritun skjalsins bentu Björn Ingi og Arnar á að ekkert tilefni væri til riftunar kaupanna, það sem átti að hafa verið greitt á þeim tíma vegna kaupanna hafði verið greitt. Birni Inga og Arnari var þá bent á að riftunarskjalið væri aðeins útbúið til málamynda, það yrði geymt hjá lögmanni Dalsins og yrði aðeins dregið upp ef þess þyrfti í því skyni að sýna kröfuhöfum Pressunnar að félagið ætti enga eign í Birtingi. Björn Ingi og Arnar urðu því við óskum forsvarsmanna Dalsins, enda varla í stöðu til annars, og rituðu undir riftunarskjalið sem skráðir stjórnarmenn Pressunnar. Það gerðu einnig forsvarsmenn Birtings.
Sama dag létu forsvarsmenn Dalsins lögmann sinn útbúa 185 m.kr. skuldabréf, þar sem Dalurinn myndi lána Pressunni umrædda fjárhæð. Virðist þá sem Dalurinn hafi verið búinn að ákveða að ekki yrði af hlutafjáraukningunni að sinni en að félagið myndi þess í stað lána Pressunni fjármuni. Til tryggingar láninu skyldi Pressan gefa út tryggingarbréf að fjárhæð 200 m.kr., þar sem allir útgáfutitlar Pressunnar og DV skyldu lagðir að veði. Björn Ingi og Arnar undirrituðu þessi skjöl í góðri trú en með fyrirvara um að fá frekari skýringar á hvernig lánið yrði greitt.
Síðari umræður um 185 m.kr. skuldabréfið leiddu til að hætt var við útgáfu þess og lánið var því ekki veitt. Óskaði Björn Ingi í framhaldinu eftir að öllum skjölum í tengslum við lánið yrði eytt og sagðist lögmaður Dalsins munu verða við því. Það gerði hann hins vegar ekki nema að hluta til, skuldabréfið fór í tætarann en tryggingarbréfin ekki, þrátt fyrir að lánið hafi ekki verið veitt.
Raunar bætti Dalurinn um betur og lét þinglýsa tryggingarbréfunum í lausafjárbók Pressunnar og DV án þess að upplýsa sérstaklega um það, eins og vikið er að hér síðar.
Hlutafjáraukning dregin til baka, riftunarbréf dregið upp úr skúffunni
Degi síðar, þann 11. maí, tilkynntu forsvarsmenn Dalsins Birni Inga og Arnari að ekkert yrði af fyrirhugaðri hlutafjáraukningu Pressunnar, Dalurinn myndi ekki taka þátt og líklega ekki aðrir aðilar sem áður höfðu lýst áhuga. Jafnframt tilkynnti Dalurinn að félagið myndi ekki leggja frekari fjármuni til Pressunnar og að hin áður tilkynntu stjórnarskipti yrðu ekki framkvæmd. Eða eins og forsvarsmenn Dalsins orðuðu það við stjórnina: „Nú er boltinn kominn til ykkar“. Nú væri það í höndum Björns Inga og Arnars að reyna að finna nýja fjárfesta og koma hlutafjáraukningunni aftur á koppinn.
Að kvöldi sama dags birtist frétt í Kjarnanum um að hlutafjáraukningin væri í uppnámi, skuldir samstæðunnar næmu 700 milljónum og að ekki stæði „steinn yfir steini“ í rekstri hennar. Með fréttinni voru öll tækifæri Björns Inga og Arnars til að endurlífga hlutafjáraukninguna kæfð í fæðingu.
Fréttin kom sér því afar illa fyrir Pressuna og leituðu Björn Ingi og Arnar eftir því við forsvarsmenn Dalsins hvort að þeir vissu hvaðan Kjarninn hefði sínar upplýsingar og heimildir. Svar forsvarsmanna Dalsins var að „okkur myndi ekki detta í hug að ræða við Kjarnann.“
Kjarninn birti þó aðra frétt örfáum dögum síðar, þess efnis að kaupum Pressunnar á Birtingi hefði verið rift, sökum bágrar fjárhagsstöðu Pressunnar, m.a. með orðunum „Rekstur Pressunnar er í molum.“
Þessi frétt kom stjórnarmönnum Pressunnar í opna skjöldu enda höfðu þeir ekkert heyrt annað en að riftunaryfirlýsingin yrði geymd í skúffu í varúðarskyni fyrir Dalinn. Hvorki forsvarsmenn Dalsins né Birtings sáu ástæðu til að upplýsa stjórn Pressunnar um að riftunarbréfið hefði verið dregið uppúr skúffunni. Gátu nú stjórnarmenn Pressunnar séð að þeir höfðu verið plataðir til að skrifa undir skjalið og að til stæði hjá Dalnum og Birtingi að þvinga Pressuna í gjaldþrot. Þaðan virðist ætlun forsvarsmanna Dalsins hafa verið að hirða upp útgáfutitlana á grundvelli tryggingarbréfs sem einnig var fengið fram með sviksamlegum hætti.
Þess má geta að Dalurinn, sem nú er eigandi Birtings, hóf nýverið útgáfustarfsemi í samstarfi við Kjarnann.
Beðið eftir gjaldþroti Pressunnar
Frá þessum tímapunkti tók stjórn Pressunnar, Björn Ingi og Arnar, aftur við stjórn og rekstri félagsins. Staðan var hins vegar svo gott sem vonlaus. Fjárhagsstaðan var erfið og tekjumöguleikar litlir með sumartíma framundan. Þá hafði stærsti hluthafinn, Dalurinn, tilkynnt að hann myndi ekki aðstoða við baráttuna, hvorki með fjárframlagi né aðstoð að öðru leyti.
Á sama tíma hélt áfram fréttaflutningur um afleita stöðu Pressunnar sem gerði stjórninni mjög erfitt að afla nýs hlutafjár eða lánsfjár til að halda lífi. Starfsmenn samstæðunnar voru jafnframt í uppnámi, þeim hafði nokkrum vikum áður verið tilkynnt um nýja og bjartari tíma með nýja eigendur og stjórnendur. Nú hins vegar þurftu þeir að þola mikinn niðurskurð enda ekki annað í boði.
Svo virðist sem forsvarsmenn Dalsins hafi látið sér það í léttu rúmi liggja. Áfram hélt fréttaflutningur um að Pressan ætti sér ekki viðreisnar von, skuldirnar væru óyfirstíganlegar.
Dalurinn hafði aldrei samband um sumarið við stjórnina um stöðu mála eða hvernig hún hugðist ná til lands. Stjórnin las hins vegar um það í fjölmiðlum í júní að Dalurinn hefði keypt Birting. Í tilkynningu Dalsins um þau viðskipti kom fram að Pressan hafði áður ætlað að kaupa Birting en að þeim kaupum hefði verið rift „vegna afleitrar fjárhagsstöðu Pressunnar“.
Af þessum fréttum og öðrum frá svipuðum tíma mátti ætla að Dalurinn hefði ætlað að kaupa hluti í Pressunni en hætt við og keypt hluti í Birting í staðinn. Sannleikurinn er bara allt annar. Á þessum tíma átti Dalurinn hvorki meira né minna en 68% hlut í Pressunni, félagi sem Dalurinn hikaði ekki við að tala niður í fjölmiðlum. Þann 30. ágúst birtist til dæmis enn frétt um slæma stöðu Pressunnar þar sem Halldór Kristmannsson, einn forsvarsmanna Dalsins, sagði að „staða Vefpressunnar og dótturfélaga er þung og stjórnendur hafa óskað eftir svigrúmi í sumar til að leita nýrra hluthafa til að bjarga rekstrinum en það hefur ekki gengið eftir.“
Um það gat Halldór þó lítið vitað á þeim tíma því hvorki hann né nokkur annar forsvarsmanna Dalsins hafði haft nokkurt samband við stjórnendur Pressunnar í rúmlega þrjá mánuði.
Eignir Pressunnar seldar með aðkomu Dalsins
Þegar leið að hausti blasti við að Pressan yrði gjaldþrota í byrjun september að óbreyttu. Tekist hafði að halda lífi yfir sumarmánuðina með lánum, en stórum kröfum þurfti að sinna fyrir dómi í byrjun september. Stjórn Pressunnar hafði allt sumarið reynt að leita leiða til að fá nýja aðila inn í félagið með hlutafé eða að afla félaginu lánsfjár en fréttaflutningur um félagið gerði það ómögulegt. Var þá í raun aðeins ein leið fær til að mæta kröfunum, það var að selja eignir félagsins.
Það gekk loks eftir að finna mögulegan kaupanda og fá fram tilboð. Stjórnin hafði þá uppgötvað að á Pressunni hvíldu fyrrgreind tryggingarbréf Dalsins, þar sem allir titlar Pressunnar og DV voru veðsettir Dalnum. Hafði það komið stjórninni á óvart enda hafði þeim verið tilkynnt að þeim bréfum hefði verið eytt þar sem það lán sem lá til grundvallar bréfunum hafði ekki verið veitt. Þeim hafði hins vegar ekki verið eytt, heldur hafði þeim verið þinglýst í lausafjárbók Pressunnar.
Í tryggingarbréfunum var meðal annars kveðið á um að Pressunni væri óheimilt að selja titlana. Í samræmi við það ákvæði tilkynnti stjórn Pressunnar Dalnum að tilboð væri komið fram um kaup á öllum titlum, með fyrirvara um að tryggingarbréfunum yrði aflétt. Með öðrum orðum, kaupin gátu ekki gengið í gegn nema Dalurinn aflétti tryggingarbréfunum.
Í kjölfarið fóru fram viðræður milli Pressunnar, Frjálsrar Fjölmiðlunar og Dalsins um uppgjör á tryggingarbréfunum. Voru þau mál leyst með samkomulagi milli Frjálsrar fjölmiðlunar og Dalsins sem nam tugum milljóna króna. Jafnframt þvingaði Dalurinn Björn Inga til að takast afturvirkt á hendur sjálfskuldarábyrgð á 50 m.kr. láni Dalsins til félags í eigu Björns Inga. Í framhaldinu afhentu forsvarsmenn Dalsins umrædd tryggingarbréf og þar með gátu kaupin gengið í gegn.
Við þetta tækifæri var sérstaklega rætt að Björn Ingi hafði tekið að láni fjármagn í sumar og endurlánað Pressunni til þess að fleyta henni áfram meðan unnið væri að lausn mála. Dalurinn var að fullu upplýstur um þessi mál áður en gengið var frá sölu titlanna, en lætur nú nýja stjórn fjalla um þau mál eins og ný tíðindi sem þurfi sérstakrar rannsóknar við. Og setja ekki einu sinni fram réttar tölur í þessu samhengi.
Þrátt fyrir þetta sendi Dalurinn út tilkynningu til fjölmiðla í framhaldinu um að „kaupsamningur Frjálsrar Fjölmiðlunar um kaup á nánast öllum eignum Pressunnar og tengdum félögum var kynntur fyrir eigendum Dalsins eftir að hann var frágenginn.“
Sú yfirlýsing var eins og margar aðrar gefin gegn betri vitund enda hefðu kaupin ekki verið frágengin án aðkomu Dalsins eins og fyrr var lýst.
Hluthafafundur og viðræður um sölu Dalsins á hlutum félagsins í Pressunni
Síðustu vikur hefur verið enn verið fjallað um málefni Pressunnar í fjölmiðlum. Hefur því verið lýst þar að Dalurinn vilji að haldinn verði hluthafafundur í Pressunni til að Dalurinn geti tekið við stjórn Pressunnar. Þar vísa forsvarsmenn Dalsins því jafnframt á bug að Dalurinn hafi átt í viðræðum um sölu hlutar félagsins í Pressunni.
Þar er enn og aftur farið með rangt mál. Hið rétta er að þegar gengið var frá sölu eigna Pressunnar í september, með aðkomu Dalsins eins og fyrr greinir, viðruðu forsvarsmenn Dalsins þá hugmynd hvort að stjórnarmenn Pressunnar vildu yfirtaka eða kaupa hluti Dalsins í Pressunni.
Má í því sambandi einnig benda á að í tilkynningu forsvarsmanna Dalsins í kjölfar sölunnar sagði:
„Dalurinn er áfram eigandi að 68% hlut í Pressunni og ekki er ákveðið hvað verður um þann eignarhlut. En í ljósi umræddra viðskipta má telja að sá hlutur hafi lítið verðmæti þar sem eignir hafa verið seldar úr félaginu.“
Í október fundaði fulltrúi Pressunnar með forsvarsmanni Dalsins um þetta atriði og var þá jafnframt skýrt hvernig söluandvirði eigna Pressunnar hafði verið ráðstafað.
Í kjölfarið áttu sér stað viðræður um sölu Dalsins á hlut félagsins í Pressunni. Eins og að ofan greinir hafði Dalurinn sjálfur lýst því yfir opinberlega að hlutur þeirra hefði „lítið verðmæti“. Hafa samningaviðræður einkum snúist um verðmætið en ekki náðust samningar.
Hluthafafundur var svo haldinn í dag og ný stjórn sett yfir Pressuna, að kröfu Dalsins. Virðist jafnljóst og fyrr, að meginmarkmiðið er að koma félaginu í þrot hið fyrsta og þyrla upp moldviðri um rekstur þess og stjórnendurna, sem hafa róið lífróður um margra mánaða skeið.
Það er hins vegar mikill misskilningur að kröfuhöfum Pressunnar hafi verið mismunað með því að Frjáls fjölmiðlun hafi tekið yfir einstakar kröfur. Að sjálfssögðu gat það félag sem kaupandi haft um það að segja, hvaða kröfur væru teknar yfir og hverjar ekki.