Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, tengir ásakanir barnaverndar á höfuðborgarsvæðinu við hugsanlega áminningu og segir að það sé farið í manninn en ekki boltann.
RÚV greindi frá þessu en áður hafði verið fjallað um fjölmargar kvartanir í garð Braga. Hildur Jakobína Gísladóttir, fyrrverandi félagsmálastjóri á Ströndum, lýsti því á Facebook-síðu sinni að hún hafi hrökklast úr starfi eftir að Bragi beitti hana ofbeldi. Er það ekki eina tilvikið þar sem kvartað er yfir framkomu hans í starfi.
Barnaverndarnefndir höfuðborgarsvæðisins hafa sent fjölmargar kvartanir um framkomu forstjóra Barnaverndarstofu, Braga Guðbrandssonar, sem og framkomu stofnunarinnar Barnaverndarstofu í garð þeirra til félagsmálaráðuneytisins.
„Barnaverndarstofa hefur haft til skoðunar að áminna nefndina og ég lít nú eiginlega á þessar athugasemdir dálítið í [því] ljósi, þó það sé nú ömurlegt að þurfa að segja það,“ sagði Bragi við RÚV en kvaðst ekki geta tjáð sig um hvaða mál væri að ræða.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði fyrr í dag að málið færi í formlegan farveg innan ráðuneytisins. „Það hefur sinn framgang og mikilvægt að tekið sé á málinu af alvöru og unnið eins hratt og kostur er fyrir alla,“ segir Þorsteinn.