Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitti ökumanni sem grunaður er um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og fíkniefna eftirför á fimmta tímanum í nótt. Hugðist lögreglan stöðva för mannsins sem ákvað að sinna ekki stöðvunarmerkjum og hófst því eftirför.
Samkvæmt dagbók lögreglunnar ók maðurinn á miklum hraða Kringlumýrarbraut að Sæbraut og þaðan í átt að Hörpu. Stöðvaði ökumaðurinn ökuferð sína þar og reyndi að komast undan á hlaupum en var hlaupinn uppi af lögreglumönnum.
Á þessari leið sem bifreiðinni var ekið ók ökumaður ítrekað gegn rauðu ljósi og hraði bifreiðarinnar var jafnframt mjög mikill. Var maðurinn sviptur ökuréttindum á staðnum.
Fjöldi annarra umferðarbrota sem mörg tengdust áfengis- eða fíkniefnaakstri var á borði lögreglunnar í nótt. Í dagbók lögreglunnar eru talin upp tíu atvik þar sem slík brot áttu sér stað.
Þá var maður handtekinn í miðborginni á þriðja tímanum fyrir að veitast að fólki og vera til ama. Var málið afgreitt með sekt.
Í heild komu upp tæplega 60 mál hjá lögreglu í nótt og eru fangageymslur svo til fullar samkvæmt dagbókinni. Kemur þar fram að flest málin tengist líkamsárásum og ölvun.