Náin tengsl við Breta í forgangi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Hanna

Að tryggja náin tengsl við Breta til framtíðar er [...] algjört forgangsverkefni.“ Þetta er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins um nýútkomna skýrslu um greiningu hagsmuna vegna útöngu Breta úr EES - Brexit.

Fram kemur að útganga Bretlands muni hafa víðtæk áhrif á Evrópusamstarf til framtíðar og snerti hagsmuni Íslands með ýmsum hætti. Náin tengsl, sem byggi á EES-samningnum, séu á milli landanna.

Fram kemur í fréttinni að íslensk stjórnvöld hafi lagt „áherslu á áframhaldandi aðgang að breskum mörkuðum og á samstarf ríkjanna á ýmsum öðrum sviðum. Skýrslan leggur grunn að umfangsmikilli vinnu sem nú á sér stað við að skilgreina enn fremur markmið Íslands í framtíðarviðræðum við Bretland.

Haft er eftir Guðlaugi Þór að Bretland sé eitt af allra mikilvægustu samstarfsríkjum Íslands. „Til að geta komið auga á tækifærin sem þessar sviptingar gætu haft í för með sér er mikilvægt að vinna heimavinnuna vel. Þessi skýrsla er til marks um mikilvægi þessa viðfangsefnis,“ segir Guðlaugur Þór. 

Í skýrslunni kemur fram að það verkefni að nýta tækifærin sem best sé í grófum dráttum tvíþætt. „Annars vegar að tryggja sem minnsta röskun í samskiptum við Bretland, sérstaklega á þeim sviðum sem undir EES-samninginn heyra, og hins vegar að skilgreina hvernig framtíðarskipan samskipta Íslands og Bretlands verði best háttað í þágu íslenskra og breskra borgara og fyrirtækja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert