Ferð á HM gæti kostað 200 þúsund

Íslenskir stuðningsmenn skemmtu sér vel á EM í fyrrasumar.
Íslenskir stuðningsmenn skemmtu sér vel á EM í fyrrasumar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ferð á einn leik Íslands á HM í Rússlandi næsta sumar, þar sem gisting í tvær til þrjár nætur, flug, rútuferðir og eftir atvikum leiðsögn er innifalin, gæti kostað á bilinu 200 til 250 þúsund krónur. Þetta segja forsvarsmenn tveggja af umsvifamestu ferðaskrifstofum landsins þegar kemur að ferðum á íþróttaviðburði en heyra má að þær eru báðar í startholunum.

Á þessu eru ýmsir fyrirvarar, svo sem um leikstaði Íslands og verð á hótelherbergjum, en það ku vera mjög mismunandi á milli borga. Þór Bæring Ólafsson, framkvæmdastjóri hjá Gaman ferðum, segir að hann reikni með að fyrstu ferðirnar verði settar í sölu á mánudaginn, eftir rúma viku, 4. desember. Á annan tug þúsund Íslendinga hefur þegar skráð sig á lista hjá ferðaskrifstofunum tveimur samanlagt en þeir munu njóta forskots þegar ferðirnar fara í sölu.

Lengri og flóknari ferðalög

Dregið verður í riðla á HM í Rússlandi 1. desember, eða á föstudaginn. Mikil eftirvænting ríkir á meðal íslenskra stuðningsmanna, enda hefur A-landslið Íslands aldrei leikið á HM, hvorki í kvenna- né karlaflokki. Í fyrra keyptu Íslendingar um 27 þúsund miða á leiki Íslands á EM í Frakklandi. Forsvarsmenn ferðaskrifstofa eru sammála um að fjöldinn verði sennilega eitthvað minni á HM í Rússlandi enda er um lengri veg að fara og ferðalögin geta orðið flóknari.

Þór Bæring Ólafsson, framkvæmdastjóri Gaman ferða, í Frakklandi.
Þór Bæring Ólafsson, framkvæmdastjóri Gaman ferða, í Frakklandi. Ljósmynd/Þór Bæring

Lúðvík Arnarson, hjá ferðaskrifstofunni VITA, er á fullu að undirbúa ferðir. Hann segir að búið sé teikna upp ákveðna beinagrind en endanleg mynd sé ekki komin á ferðirnar. Drátturinn á föstudag skeri úr um leikstaði Íslands. Hann bendir á að ferðalögin séu misþægileg en í því samhengi má benda á að frá vestasta leikstaðnum í Rússlandi er styttra heim til Íslands en til þess austasta. Fjarlægðir á milli borga eru stundum gífurlegar.

Þúsundir á póstlistum

Lúðvík segir að áhuginn sé mikill og að fleiri þúsund manns hafi sent póst á sport@vita.is til að fá sem fyrst upplýsingarnar þegar þær liggja fyrir. „Það er mikill áhugi hjá öllum að fara og taka þátt á einhvern hátt. En maður veit ekki hversu margir munu á endanum fara.“ Hann segir aðspurður að samkeppni á milli ferðaskrifstofa sé töluvert mikil þegar kemur að ferðum á íþróttaviðburði.

Íslendingar fagna ákaft á móti Englendingum í Nice.
Íslendingar fagna ákaft á móti Englendingum í Nice. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lúðvík segir líklegt að VITA muni sjálfir standa fyrir ferðum, leigja flugvélar, en miða á leikina verður aðeins hægt að kaupa á vefsíðu FIFA. Hann segir að VITA hafi komið að ferðum um 1.500 Íslendinga á EM í fyrra. Aðspurður segir hann að flug með gistingu í tvær til þrjár næstur, rútuferðum og leiðsögn gæti kostað einhvers staðar í kring um 250 þúsund krónur. Um það sé þó enn töluverð óvissa. „Þetta verður dýrara en að fara til Frakklands en ódýrara en til Brasilíu,“ segir Lúðvík. Hann segir að ekki liggi fyrir hvenær VITA setji fyrstu ferðir í sölu en að það verði mjög fljótlega eftir 1. desember.

Hann segist ekki eiga sér draumariðil þegar að drættinum kemur en segist sjálfur vilja sjá Ísland spila við Argentínu. „Það er ekkert víst að það verði draumaleikurinn í þessu öllu saman. Strákarnir vinna bara það sem fyrir þá er lagt,“ segir hann en fulltrúar VITA verða í Rússlandi að kynna sér hótel og semja næstu tíu daganna.

Lúðvík Arnarson, yfirmaður íþróttadeildar Vita.
Lúðvík Arnarson, yfirmaður íþróttadeildar Vita. Ljósmynd/Vita

Skiptimarkaður með hótelherbergi

Þór Bæring hjá Gaman ferðum segir að fulltrúar fyrirtækisins séu búnir að kynna sér vel allar borgirnar sem koma til greina. Ferðaskrifstofan hafi þegar bókað herbergi á mörgum stöðum. Hann segir að þegar riðlarnir liggi fyrir muni fara fram eins konar skiptimarkaður á milli ferðaskrifstofa í Rússlandi, eftir því hvar hver þjóð spili.

Þór gerir ráð fyrir því að fyrstu ferðir verði í boði mánudaginn 4. desember og segir með fyrirvara að dæmigerð tveggja til þriggja daga ferð gæti kostað á bilinu 200-250 þúsund krónur. Hann bendir þó á að verð á hótelherbergjum sé mjög mismunandi á milli borga. „Í sumum borgum, þar sem eru fá hótel, er verðið hátt. Það væri draumur að spila í Moskvu eða St. Pétursborg,“ segir hann. Hann vonast til að Ísland lendi í B-riðli, því þá spili liðið í báðum þessum borgum, en er slétt sama um andstæðinga Íslands í riðlinum. „Við tökum bara því sem upp kemur,“ segir hann þó. Vonir hans standi til að sem flestir Íslendingar fái að upplifa Ísland á HM.

Víkingaklappið mun sennilega hljóma í Rússlandi næsta sumar.
Víkingaklappið mun sennilega hljóma í Rússlandi næsta sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fimm vélar klárar

Gaman ferðir hafa þegar tryggt sér fimm flugvélar en hver vél hefur um 200 sæti. Hann segir að á fimmtudaginn hafi átta þúsund manns skráð sig á póstlista hjá ferðaskrifstofunni, en það má gera á vefsíðunni gaman.is.

Þór telur að fleiri muni velja að fara til Rússlands í skipulagðri ferð en til Frakklands síðasta sumar. Það sé öryggi í því fólgið að hafa rússneskumælandi leiðsögumenn innan handar.

Hann segir aðspurður að Gaman muni einnig bjóða upp á ferð fyrir þá sem vilja sjá alla leiki Íslands í undankeppninni. „Það verður ekki ódýr pakki – en hann verður í boði,“ segir hann en í þeim tilfellum þurfi líka að bóka innanlandsflug. Benda má á að ýmist verða þrír, fjórir eða fimm dagar á milli leikja liðsins í Rússlandi.

Þór segir að ferðaskrifstofan hafi ákveðið að nýta sér ekki lestarsamgöngur í Rússlandi, heldur treysta á flugið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert