Lögreglan hafði um hádegisbil í dag afskipti af nokkrum tugum ferðamanna sem höfðu gengið út á ísilagt Jökulsárlón. Ragnar Unnarsson leiðsögumaður segir frá málinu á Facebook-hópnum Baklandi ferðaþjónustunnar í dag, en hann hafði samband við Vatnajökulsþjóðgarð vegna málsins sem svo kallaði á lögreglu. Segir Ragnar að hann hafi aðeins beðið eftir að einhver færi ofan í, enda hafi sumir ísjakanna ruggað.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var hluti lónsins ísilagður og gaf það ferðamönnum færi á að ganga út á lónið. Ragnar segir að svo virðist vera sem klakabeltið hafi verið margbrotið, það hafi frosið og svo hafi flóð og fjara hreyft ísinn til og hann svo frosið aftur. „Þetta er samhangandi og fullt af minni jökum frosnum saman,“ segir hann og bætir við að hann hafi séð suma jakana rugga í ísnum.
Meðal þeirra sem voru á ísnum voru brúðhjón sem voru í myndatöku og þá var nokkur fjöldi kominn mjög langt út á ísinn. „Þeir voru komnir það langt að það þýddi ekkert fyrir mig að vera að öskra,“ segir Ragnar. Hann hafi leitað að þjóðgarðsverði eða landverði en engan fundið. Þá hafi hann hringt í þjóðgarðinn sem hafi brugðist við og hringt á lögregluna auk þess sem þjóðgarðsvörður mætti fljótlega.
Segir Ragnar að viðbragð lögreglunnar hafi verið gott og hún komin á innan við 10-15 mínútum. Þeir hafi farið upp á hól við vatnið og kallað til ferðamannanna að koma í land. Segir hann að sumir hafi ekki látið sér segjast strax, en greinilega hafi einkennisfatnaðurinn skipt máli í að fá fólk í land.
Ragnar segir að ekki sé hægt að setja rimla alls staðar eða hafa Ísland eins og eitthvert Disneyland, en huga þurfi að því, sérstaklega þegar um þjóðgarð sé að ræða, hvort ekki eigi að gera meira varðandi að hafa viðvaranir til ferðamanna. Sjálfur hafi hann ekki séð nein greinileg skilti á staðnum sem vari fólk við að fara í lónið.