Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að línur í sjónarmyndunarviðræðunum muni skýrast í dag eða á morgun. „Algjörlega,“ sagði hún í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
„Við erum langt komin. Við erum ekki búin að loka málinu en það hvílir á okkur að gera það í dag eða á morgun samkvæmt okkar eigin áætlun,“ sagði Katrín. Hún segir að sá tími sem flokkarnir þrír hafi gefið sér til að komast að niðurstöðu sé að verða á enda.
Hún segir nú unnið að því að ljúka málefnasamningi en einnig að fara yfir fjárlög sem samþykkja þarf fyrir áramót. „Það er hluti af þeirri vinnu sem við höfum ráðist í síðustu daga, að fara yfir fjárlagafrumvarpið.“
Spurð nákvæmlega hvenær málin fari að skýrast segir hún að það ætti að gerast á morgun, mánudag. „Algjörlega. Nú er bara af eða á.“
Katrín sagðist nokkuð bjartsýn á að flokkarnir þrír, VG, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, næðu saman. Hún segir flokkana ólíka og að samstarf við flokka með ólíkar áherslur sé öðruvísi. Málið snúist hins vegar um málefnin.
Hún sagði að í raun hefði stjórnarkreppa ríkt í landinu frá árinu 2016. Það gekk illa að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar í fyrra og sú stjórn hafi svo strax verið gagnrýnd fyrir skort á sýn. Hún sagði því stjórnarmyndunarviðræður nú öðruvísi og snúast um þau mikilvægu mál er sem búið er að ræða tvennar kosningar í röð.
Stóru málin væru heilbrigðismál, menntamál og samgöngumál. Hún sagði málið ekki snúast um að flokkarnir þrír sem nú væru að ræða saman væru að renna saman í einn flokk, eins og einhverjir hafa haldið fram heldur að þessir ólíku flokkar nái saman um stóru málin og nái sáttum um mál sem þeir eru ósammála um. Ágreiningurinn snúist um hvernig fjármagna eigi verkefnin og forgangsraða fjármununum.
Katrín rifjaði upp að hún hefði tekið þátt í Reykjavíkurlistanum og þar hefði gengið á ýmsu þó að þeir flokkar hefðu unnið lengi saman og legið þétt saman málefnalega. Sama hefði verið uppi á teningnum í samstarfi VG og Samfylkingar í ríkisstjórn. „Það er allt annað verkefni en þegar þú ert með jafnólíka flokka og raun ber vitni núna.“
Hún minnti á að fólk væri í stjórnmálum til að hafa áhrif og gera gagn. Sem stjórnmálahreyfing væri það hlutverk VG að grípa þau tækifæri sem gæfust til að hafa raunveruleg áhrif. Vissulega hefðu viðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsókn verið ákveðin áhætta fyrir VG sem er skilgreindur lengst til vinstri á hinu pólitíska litrófi af þeim flokkum sem eiga fulltrúa á þingi. „En það er þannig að ef maður tekur ekki áhættu í stjórnmálum þá hefur maður ekki áhrif.“
Katrín sagði stjórnmál fyrst og fremst snúast um málefni og hvaða árangri væri hægt að ná með þau.