Þingflokksfundir klukkan eitt á morgun

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/​Hari

Formenn flokkanna þriggja sem eru í stjórnarmyndunarviðræðum ætla að hittast aftur á morgun, en Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að þá verði væntanlega einhverra tíðinda að vænta. Þá hefur verið boðað til þingflokksfundar hjá flokkunum á morgun klukkan eitt. 

Við erum með þingflokksfund á morgun kl. 13.00 þar sem við munum fara yfir mál. Ég vænti þess að þar verði farið yfir það hvernig við metum þetta. Við erum búin að setja okkur það markmið að ljúka þessu á morgun. Það verða þingflokksfundir hjá öllum klukkan 13.00 á morgun,“ segir Katrín við mbl.is.

Spurð um hvaða mál standi eftir að ná samkomulagi um segir hún að enn sé tekist á um ráðherraskipan og fjárlagagerð. „Það tengist auðvitað ráðherraskipan og ráðuneytaskipan sem við eigum eftir að ræða og það tengist fjárlagagerð líka. Við erum á lokametrunum í stjórnarsáttmálanum, við erum að loka honum.“

Hún segir ekki búið að ræða hvort  ráðuneytum verði fjölgað. Framhald í tengslum við ríkisstjórnarmyndun ætti svo að ráðast í miðri viku. „Við væntum svo þess að flokkstofnanir verða boðaðar í miðri viku,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert