Vill engu svara um freyðivín

Sigurður Ingi Jóhannsson, í liðinni viku.
Sigurður Ingi Jóhannsson, í liðinni viku. mbl.is/​Hari

„Ég tjái mig ekki um það sem er tekið upp í gegnum lokuð gluggatjöld,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, glaður í bragði. Málefnasamningur þeirra þriggja flokka sem unnið hafa að myndun ríkisstjórnar undanfarnar vikur er nú að mestu fullfrágenginn.

Í fréttum RÚV í kvöld var birt myndefni þar sem mátti sjá fólk skála í freyðivíni. Sigurður Ingi vill ekki svara því hvort formennirnir hafi verið á meðal þeirra sem skálað hefðu í kvöld en á Sigurði má heyra að honum er skemmt.

Hann staðfestir það sem fram hefur komið að fáein atriði standi út af borðinu og að frá þeim muni formennirnir ganga á morgun. „Planið er að stefna flokkapparötunum saman, þá væntanlega á miðvikudagskvöldið, ef þetta allt gengur upp,“ segir hann. Um sé að ræða lausa enda. „Þetta er mjög langt komið og við sjáum til lands.“

Hann segir að ekki liggi fyrir hvenær formennirnir hittist á morgun en að þeir verði sjálfsagt meira og minna saman allan morgundaginn. Hann segir aðspurður að enginn hafi skellt hurðum meðan á vinnunni hafi staðið. „Þetta er búin að vera heilmikil törn, eins og svona vinnutarnir eru. En það er ánægjulegt hvað þetta hefur gengið vel,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert