Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) hefur látið stækka tvö fjölbýlishús, sem það er nú að reisa í Árskógum 1-3, þannig að þau rúmi samtals 68 íbúðir í stað 52 íbúða. Bætt var einni hæð við hvort hús og verða þau fimm hæðir auk þakhæðar.
Í umfjöllun um framkvæmdir þessar í Morgunblaðinu í dag segir Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri FEB, að búið væri að samþykkja breytt deiliskipulag á öllum vígstöðvum. Nú er þess beðið að það verði auglýst í Stjórnartíðindum.
„Við fundum fyrir svo miklum áhuga að við ákváðum að fara fram á að bæta við einni hæð í hvoru húsi og fjölga íbúðunum,“ segir Gísli. Bygging húsanna er hafin og hefur fengist leyfi fyrir einni hæð í einu á meðan beðið er eftir auglýsingu á nýju deiliskipulagi.