Nasr Mohammed Rahim, konu hans Sobo Anwar Hasan og ungum syni þeirra, verður vísað úr landi á morgun. Lögreglan heimsótti þau seinnipartinn í dag til að tryggja að hægt verði að framfylgja brottvísuninni. Sobo er ólétt og hefur verið veik síðustu daga. Hún lá inn á spítala um helgina vegna verkja og blæðinga en læknar hafa ekki fundið út hvað veldur.
Þetta staðfesta bæði Sema Erla Serdar, formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólks á Íslandi, og Toshiki Toma prestur innflytjenda. Þau hafa ekki náð í þau sjálf eftir heimsókn lögreglu í dag en fengu upplýsingarnar í gegnum vin þeirra. Þau vita ekki hvar fjölskyldan er niðurkomin þessa stundina. Fjölskyldunni verður vísað aftur til Þýskalands en þau komu þaðan til Íslands.
Bæði Sema og Toghiki telja líklegt að flóttafjölskyldunni hafi verið gert að pakka niður og yfirgefa heimili sitt á örskömmum tíma í dag og að hún sé núna í umsjá Útlendingastofnunar.
„Það ótrúlega við þetta er að það er enginn tímarammi á brottvísuninni. Fólk fær yfirleitt nokkurra daga fyrirvara áður en að brottvísuninni kemur. Þetta hefur færst í aukana undanfarið að fólk sé vísað úr landi með þessum hætti. Ætli það sé ekki verið að halda áfram að klára skítverkin áður en næsta ríkisstjórn tekur við völdum. Ég veit ekki hvað er hægt að gera. Ég er orðlaus. Ég skil ekkert,“ segir Sema.
Hún segir að síðustu daga hefur hún ásamt lögmanni þeirra unnið að því að mál þeirra yrði tekið upp aftur. „Við erum komin það langt með málið að við vorum komin með í hendurnar gögn sem sýna að raunveruleg rök eru fyrir því að mál þeirra yrði tekið upp aftur,“ Sema. Þau ætluðu að óska eftir að málið yrði tekið upp aftur á næstu dögum.
„Akkúrat núna veit ég ekki hvað við getum gert,“ segir Sema. Hins vegar eru þau staðráðin í að fylgja málinu eftir. Ef þau fá ekki hæli í Þýskalandi og verða send aftur til Írans eða Íraks þar sem líf þeirra er í hættu eða hreinlega fjölskyldunni splundrað þá eru íslensk yfirvöld ábyrg fyrir því, segir Sema.
Samkvæmt vitneskju Semu hafa læknar ekki komist að því hvað veldur verkjum og blæðingum á meðgöngu Sobu. Hún hefði átt að mæta aftur í skoðun í vikunni. „Við vitum að hún er bæði andlega og líkamlega veik. Ég skil þetta ekki,“ segir Sema.
Toghiki, prestur innflytjenda, segir að heilbrigðisstarfsmaður muni fylgja fjölskyldunni úr landi vegna veikinda Sobu. Hann segir fátt í stöðunni sem hann geti gert. Hins vegar hafi hann haft samband við kristna kirkju í Þýskalandi, þar sem þau eru bæði kristin, sem muni aðstoða þau eftir fremsta megni.
Nasr er 26 ára gamall, Sobo verður 24 ára í næsta mánuði og sonur þeirra Leo fæddist í maí í fyrra. Þau líta á sig sem Kúrda en Nasr er með írakst ríkisfang og Sobo með íranskt. Faðir Sobo er háttsettur íslamskur klerkur og var fjölskylda hennar algjörlega á móti því að hún giftist Nasr.
Þrátt fyrir óánægða fjölskyldu gengu Nasr og Sobo í það heilaga. Þau óttuðust samt reiða ættingja Sobo og flúðu til heimaborgar Nasr í Írak. Þar reyndu hryðjuverkasamtök að fá Nasr til að ganga til liðs við sig og á sama tíma heyrðu þau af því að reiðir fjölskyldumeðlimir Sobo hefðu elt þau frá Íran og hótað þeim lífláti. Þannig hófst flótti þeirra til Evrópu.