Í dag klukkan 13:00 verða afhjúpuð þrjú ný upplýsingaskilti sem sett hafa verið upp við vinsælar gönguleiðir á Esjuna. Skiltin eru samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Safetravel.
Í tilkynningu frá Landsbjörgu er bent á að Esjan sé afar vinsæl til útivistar en margir vanmeti aðstæður þar að vetrarlagi. „Fólki er tamt að skokka á fjallið sér til ánægju eða yndisauka en þegar vetur tekur völdin, eins og er að gerast um þessar mundir, breytast aðstæður. Fjallið fer úr því að verða flestum fært yfir í að fólk þarf snjóflóðabúnað og fjallabúnað eins og brodda og ísaxir, ætli það eitthvað annað um fjallið en neðsta hluta vinsælla gönguleiða,“ segir í tilkynningunni.
Síðustu áratugina er Esjan það einstaka íslenska fjall sem hefur tekið flest mannslíf, líklega flest að vetrarlagi. Skemmst er að minnast slys fyrir tæpu ári þegar ungur maður lét þar lífið.
Á upplýsingaskiltunum þremur má finna helstu upplýsingar um góða ferðahegðan en auk þess árstíðahring sem sýnir vel hvað þarf að hafa í huga ætli fólk að ganga á fjallið.
Árni Tryggvason, björgunarsveitarmaður og hönnuður, hannaði skiltið fyrir FÍ og Safetravel.