Heimsþing alþjóðasamtakanna WPL, Women Political Leaders Global Forum, var formlega sett í Hörpu í morgun. Þingið er það fjölmennasta frá upphafi en það sækja um 400 stjórnmálakonur frá um 100 löndum og ber það yfirskriftina „We Can Do It!“
„Staðurinn og stundin á þessu þingi er viðeigandi sem aldrei fyrr þar sem Ísland er heimsmeistari í jafnrétti,“ sagði Silvana Koch-Merhin, forseti WPL, við setningu þingsins. Auk Koch-Merhin fluttu Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarp við opnunina.
Koch-Mehrin segir að hægt sé að auka jafnrétti og hlut kvenna stjórnmálum bæði með því að fjölga konum í stjórnmálum og með því að auka áhrif þeirra. Tekur hún undir orð Vigdísar Finnbogadóttur um að kvenréttindi séu mannréttindi og því sé það mikilvægt mannréttindamál að loka kynjabilinu. Hvatti hún þinggesti til að læra af dvöl sinni á Íslandi og taka hluta af því með sér heim. „Þegar ein kona er leiðtogi breytir það henni, en þegar margar konur eru leiðtogar breytast stjórnmálin og stefnurnar,“ sagði Koch-Mehrin.
Þingið er haldið í samstarfi við Alþingi og ríkisstjórn Íslands, en Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands er sérstakur verndari heimsþingsins en henni verða veitt sérstök heiðursverðlaun á þinginu. Allar konur sem sitja á þjóðþingum alls staðar um heiminn eiga aðild að samtökunum en Hanna Birna Kristjánsdóttir er stjórnarformaður samtakanna.
Í ávarpi sínu stiklaði Steingrímur J. Sigfússon á stóru um þátttöku kvenna í stjórnmálum á Íslandi og benti þinggestum á að flest benti til þess að næsti forsætisráðherra Íslands yrði kona. Vísaði hann þar til Katrínar Jakobsdóttur sem að öllum líkindum tekur við embætti forsætisráðherra í þessari viku.
„Ég get ekki sleppt því að nefna hreyfinguna sem farið hefur af stað undanfarnar vikur undir myllumerkinu #metoo,“ sagði Guðlaugur Þór í ávarpi sínu. Hann sagði mikilvægt að konur standi ekki einar í baráttunni gegn ójafnrétti kynjanna, karlar yrðu að taka þátt enda njóti allir góðs af auknu jafnrétti.
„Þegar ég tala um kvenréttindi á alþjóðavettvangi bendi ég á hvernig við karlarnir græðum á því að kvenréttindi séu í hávegum höfð,“ sagði Guðlaugur Þór. Mörgum konum sé hægt að þakka fyrir hversu langt við höfum náð en þar sé Vigdís Finnbogadóttir fremst meðal jafningja.
Ræðumenn voru sammála um að margt hafi áunnist á undanförnum áratugum í átt að auknu jafnrétti kynjanna, ennþá sé þó nokkuð langt í land, líka á Íslandi.