Þjóðarskömm að krókna í tjaldi

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Hanna

„Það er þjóðarskömm að fólk þurfi að hafast við á tjaldsvæðinu í Laugardal - gegn vilja sínum - vegna húsnæðisvanda.“ Þannig hefst pistill Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á Facebook. 

Samkvæmt frétt RÚV frá því á þriðjudag hafast um 20 manns við á tjaldsvæðinu í Laugardal en næturfrostið fór niður fyrir tíu gráður í byrjun vikunnar.

Dagur segir að borgin hafa síðustu vikur unnið að því að kaupa íbúðir og útbúa neyðarhúsnæði í Víðinesi fyrir þá Reykvíkinga sem ekki hafa í önnur hús að venda. „Alls eru þetta 144 íbúðir og úrræði sem búið er að kaupa og verið er að standsetja,“ skrifar Dagur.

Hann bendir á að umtalsverður hluti hóps sem hefst við á tjaldsvæðinu í Laugardal sé úr nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og af landsbyggðinni. 

Frumskyldan hlýtur að liggja heimafyrir

„Ég vil taka fram að ég tel að borgin beri ákveðin siðferðileg skylda til að líta líka til þessa fólks varðandi neyðarlausnir á þeirra vanda, samhliða því að við tryggjum Reykjavíkingum öruggt húsaskjól. En frumskyldan hlýtur að liggja heimafyrir og mér finnst reyndar fullkomnlega eðlilegt að velferðarsvið borgarinnar sendi viðkomandi sveitarfélögum reikninginn,“ skrifar Dagur.

Hann segir að Reykjavík leggi allt kapp á að takast á við húsnæðisvandann og segir jafnframt að önnur sveitarfélög verði að standa sig betur. 

Þarf að skylda önnur sveitarfélög til að fjölga neyðaríbúðum?

„Ég spyr: Þarf ný ríkisstjórn hugsanlega að leiða skyldu sveitarfélaga til að fjölga þessum íbúðum í lög, þannig að munurinn á milli Reykjavíkur og annarra haldi ekki bara áfram að aukast? Ég vona alla vega að rækilega sé fjallað um húsnæðismál í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar því þau eru og verða eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert