Aðeins einu sinni fleiri konur í stjórn

Konur skipa fimm ráðherraembætti af ellefu.
Konur skipa fimm ráðherraembætti af ellefu. mbl.is/KG

Fimm konur gegna ráðherraembættum í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks sem tekur formlega við völdum í dag. Ráðherraembættin eru ellefu og er hlutfall kvenna í ríkisstjórn því 45,5 prósent. Þetta er þó ekki hæsta hlutfall kvenna sem setið hefur í ríkisstjórn því hlutfallið var 55,6 prósent árið 2011. Það fór svo niður í 50 prósent áður en kjörtímabilinu lauk.

Kvenkyns ráðherrum fjölgar hins vegar því frá síðustu ríkisstjórn, en stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var skipuð fjórum konum. Ráðherraembættin voru þá jafn mörg og nú og var hlutfall kvenna því 36,4 prósent.

Hlutur kvenna var enn rýrari í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem var við völd þar á undan, en þá voru þrjár konur í níu manna ríkisstjórn, eða 33,3 prósent.

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem tók við völdum eftir hrun náði þeim sögulega áfanga að vera skipuð fleiri konum en körlum um tíma, þegar konur gegndu fimm ráðherraembættum af níu. Það gerðist þegar breytingar áttu sér stað á ríkisstjórninni á miðju kjörtímabili þar sem stokkað var upp í ráðherrahópnum og ráðuneytum fækkað úr tólf í níu. Katrín Júlíusdóttir, þáverandi iðnaðarráðherra, fór hins vegar í fæðingarorlof skömmu síðar og leysti Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi atvinnuvegaráðherra, hana af. Ráðherrarnir urðu því átta og konur helmingur þeirra.

Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur 2017:

11 ráðherrar, þarf af 5 konur

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra

Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt Framtíð 2017 (kosið 2016):

11 ráðherrar, þar af 4 konur

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur 2013:

9 ráðherrar, þar af 3 konur

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra

Hanna Birna Kristjánsdóttir Innanríkisráðherra (Ólöf Nordal tók við 2014)

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Samfylkingin og Vinstri græn 2009:

12 ráðherrar, þar af 5 konur

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra

Breytingar á ríkisstjórn 2011

9 ráðherrar, þarf af 5 konur

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra

Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra

Svandís Svavarsdóttir Umhverfisráðherra

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.

Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin 2007:

12 ráðherrar, þar af 4 konur

Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingarmálaráðherra

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert