Hof Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð verður tekið í notkun síðla næsta árs. Hlé er nú á framkvæmdum við bygginguna en þær hefjast að nýju eftir áramótin. Byggingin reyndist flóknari í smíðum en ráð var fyrir gert og er það ástæðan fyrir töfum á því að hún verði tilbúin, en stefnt hafði verið að því að taka hana í notkun næsta sumar.
Þetta staðfestir Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði Ásatrúarfélagsins, í samtali við Morgunblaðið.
Félagið auglýsti nýlega eftir nöfnum á bygginguna. Hilmar segir að fjöldi tillagna hafi borist, en ákvörðun um hvaða heiti verður notað verður tekin þegar nær dregur vígslu hússins. Bygging hofsins er alfarið kostuð af Ásatrúarfélaginu sem hefur safnað fyrir byggingu þess í fjölmörg ár. Hofið verður staðsett í trjálundi í námunda við Hangaklett og Hrafnabjörg í Öskjuhlíð. Það er hannað af Magnúsi Jenssyni arkitekt. Hofið sjálft verður hvelfing, að hluta niðurgrafin, um 350 fermetrar og mun rúma um 250 manns. Eldur mun loga í hvelfingunni og hljómburður er miðaður við tónleikahald.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram að þrjú önnur trúfélög í Reykjavík, Félag múslima, Rússneska réttrúnaðarkirkjan og Búddistafélag Íslands, hafa uppi áform um byggingu trúarlegra samkomuhúsa. Hefur þeim öllum verið úthlutað byggingarlóð.