„Vona að við fáum enga skandala“

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. mbl.is/Eggert

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að margt bendi til þess að ástandið í íslenskum stjórnmálum verði stöðugra með nýrri ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Allt geti þó gerst í pólitík.

„Það er greinilega búið að leggja mikla vinnu í þennan sáttmála og það væri nú ansi snautlegt ef hann héldi ekki. Nú er bara að vona að við fáum enga skandala eða eitthvað í þá veruna,” segir Grétar Þór í samtali við mbl.is.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Rósa Björk Brynjólfsdóttir mbl.is/Ómar

Mega tapa einum þingmanni

Spurður hvort ríkisstjórnin muni halda segir hann stjórnina hafa 33 þingmenn á bak við sig og megi tapa einum án þess að missa meirihluta sinn. „Miðað við móttökurnar sem stjórnarsáttmálinn fékk í gær hjá miðstjórnum flokkanna er ástæða til að halda að það séu talsverðar líkur á því að það sé eining um þennan stjórnarsáttmála.”

Hann talar um að jafnvel þótt Vinstri græn hafi tapað tveimur þingmönnum, þegar Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir ákváðu að greiða atkvæði gegn stjórnarsáttmálanum, sé ekkert sem segi að þau geti ekki greitt atkvæði með stjórnarfrumvörpum ráðherra VG. „Þau eru ennþá í þingflokknum og við vitum ekki hvernig þau munu greiða atkvæði í einstökum málum.”

Páll Magnússon.
Páll Magnússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skilur gremju Páls 

Hvað Pál Magnússon, þingmann Sjálfstæðisflokksins, varðar sem lýsti yfir óánægju sinni með að Suðurkjördæmi ætti engan ráðherra í ríkisstjórninni, kveðst Grétar Þór skilja gremju hans. „Það er búið að ganga fram hjá Suðurkjördæmi tvisvar á einu ári hvað ráðherraherrastóla varðar og það er mjög skiljanlegt að menn kyngi því ekki í þegjandi og hljóðalaust. Hins vegar er Páll tiltölulega nýr í flokknum og kannski hefur það haft einhver áhrif.”

Grétar Þór Eyþórsson.
Grétar Þór Eyþórsson. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Fá eitthvað fyrir sinn snúð 

Grétar Þór segir augljóst að með ríkisstjórn sem verði til með samstarfi hægri og vinstri vængs stjórnmálanna sé augljóst að menn verði að gefa eitthvað eftir á báða bóga. Hann segir stjórnarsáttmálann bera það svolítið með sér, auk þess sem það sjáist í gagnrýni stjórnarandstöðunnar.

„Það er enginn að ná stefnuskrá sinni fram þarna óbreyttri. Þetta er spurning um skattamál, þessi týpísku hægri, vinstri mál. Það virðast báðir aðilar hafa fengið eitthvað fyrir sinn snúð þar.” Einnig nefnir hann að stjórnin eigi eftir að leggja fram fjárlagafrumvarp og það muni segja ákveðna sögu varðandi framtíðaráform hennar.

Ekkert um öryrkja og stjórnarskrána

Fimm konur af ellefu eru ráðherrar í ríkisstjórninni og segir Grétar það vera mjög gott. Menn hafi sopið hveljur yfir lágri útkomu kvenna út úr þingkosningunum og fyrir vikið hafi flokkarnir lagt sig fram við að „vinna upp” hlutfallið að einhverju leyti.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Spurður hvort einhver áherslumál vanti í stjórnarsáttmálann nefnir hann málefni öryrkja og áherslu á stjórnarskrármálið. Hann hafi ekki heyrt hvað stjórnin ætli að gera varðandi öryrkja, auk þess sem stjórnin ætli að „setja upp enn eina nefndina” um breytta stjórnarskrá, fimm árum eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla um málið fór fram hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert