Tveir erlendir ferðamenn voru nálægt því að missa bílinn sinn út í sjó við fjöruna við Eyrarbakka um tvöleytið í dag.
Að sögn lögreglunnar á Suðurlandi má alls ekki keyra þangað, enda er enginn vegur til staðar.
Ferðamennirnir, báðir karlmenn, vildu ólmir ná góðri ljósmynd í safnið sitt með fyrrgreindum afleiðingum. Sjórinn var aðeins þrjá metra frá bílnum þeirra, sem var pikkfastur, þegar lögreglan kom á vettvang.
Mennirnir höfðu farið út úr bílnum og ekkert vitað hvað þeir áttu að gera, að sögn lögreglunnar, sem fékk símtal frá sjónarvotti um að mæta á staðinn.
Kallað var á dráttarbíl og losaði hann bílinn.
Lögreglan segist allt of oft lenda í sams konar atvikum og segir hún ótrúlegt hvað fólk leggur á sig fyrir eina mynd.