„Ég bara treysti þer mjög vel til þess að sjá um fjármál ríkisins áfram. Eins og þú þekkir þá standa þau mjög vel og mikilvægt að hér sé ábyrgur maður sem heldur áfram þeirri stefnu að borga niður skuldir ríkisins,“ sagði Benedikt Jóhannesson þegar hann afhenti Bjarna Benediktssyni, nýjum fjármálaráðherra, lyklana að fjármálaráðuneytinu.
Benedikt afhenti Bjarna þannig sömu lykla og Bjarni afhenti honum í byrjun þessa árs þegar síðasta ríkisstjórn var mynduð. Benedikt sagðist vona að Bjarni stæði við það markmið fyrri stjórnar að ríkið verði skuldlaust eftir níu ár. Bjarni tók undir það og þakkaði Benedikt fyrir hans góðu störf. Benedikt sagði aðspurður allar góðar óskir fylgja Bjarna.
„Ég segi það bara að á okkar samstarf hefur enginn skuggi fallið. Það hefur bara verið afar gott og ég treysti Bjarna vel til allra góðra verka,“ sagði Benedikt ennfremur. Bjarni sagðist aðspurður að hugheilar heillaóskir fylgdu Benedikt sama hvað hann tæki sér fyrir hendur.
„Mér er nú fyrst og fremst það í huga að á þessu ári þá höfum við greitt upp mikið af skuldum á meðan Benedikt var hér í fjármálaráðuneytinu og lagt þannig sterkan grunn að stöðugri og traustri stöðu ríkisfjármálanna inn í framtíðina og það finnst mér mikilvægt að þakka á svona stundu,“ sagði Bjarni.
Aðspurður sagði Bjarni tilfinninguna mjög góða að vera kominn aftur í fjármálaráðuneytið. „Ég hef alltaf kunnað vel við mig hér í þessu húsi og þeim góða félagsskap sem maður finnur sig hér í með starfsfólkinu öllu. Þannig að það eru góðar tilfinningar sem bærast innra með mér.“
Bendikt tók undir það með Bjarna að úrvalsstarfsfólk væri að finna í fjármálaráðuneytinu. Varðandi framhaldið sagðist hann ekki enn hafa ákveðið að leggja í tiltekt í bílskúrnum en hann væri með nokkur verkefni í gangi, sem væru ekki beinlínis vinna, en samt ákveðin verkefni sem hann væri að fást við.