„Furðulegt að ég sé önnur konan“

Nýr forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tekur hér við lyklunum að stjórnarráðinu …
Nýr forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tekur hér við lyklunum að stjórnarráðinu úr hendi Bjarna Benediktssonar, fráfarandi forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson afhenti Katrínu Jakobsdóttur, nýjum forsætisráðherra, lyklana að stjórnarráðinu nú klukkan níu í morgun. Ríkisstjórn Katrínar tók við völdum í gær og í dag fara fram formleg lyklaskipti í ráðuneytunum þar sem nýir ráðherrar taka við embætti.

„Ég er að fara að heilsa hérna fólkinu, síðan ætlum við að halda ríkisstjórnarfund síðar í dag og fara að undirbúa fjárlagafrumvarp þannig að það er bara nóg að gera,“ sagði Katrín, spurð um sín fyrstu verkefni í embætti. Hún kveðst full tilhlökkunar fyrir verkefnunum fram undan sem forsætisráðherra en Katrín er önnur konan frá upphafi til að gegna embættinu.

„Auðvitað er það bara furðulegt að ég sé önnur konan, ég ætti náttúrlega að vera númer svona fimmtán. Þannig í raun og veru er maður bara að vinna upp hallann, það þyrftu að koma svona fimmtán í röð núna,“ segir Katrín.

Spurð hvort hún hafi lengi haft augun á embættinu segir hún svo ekki beinlínis vera. „En eins og allir vita bauð ég mig fram til að leiða hérna ríkisstjórn, ég lagði mikla áherslu á það fyrir kosningar þannig að þetta er bara fínt, það gekk eftir.“

Bjarni Benediktsson kvaddi forsætisráðuneytið í morgun.
Bjarni Benediktsson kvaddi forsætisráðuneytið í morgun. mbl.is/Eggert

Katrín minntist þess að í gær hafi hún verið spurð af erlendum blaðamanni hvort lyklaskiptin væru forn hefð á Íslandi, jafnvel frá víkingatímanum. „Við höfum verið að hugsa hvað við eigum að segja við því, hversu fornt þetta er, en nú þarf ég að fara að nýta daginn, ég ætla að komast að því hversu forn þessi hefð er þannig að ég get kannski upplýst ykkur um það síðar í dag,“ segir Katrín.

„Tregablandin tilfinning“ að skipta um ráðuneyti

Bjarni Benediktsson, fráfarandi forsætisráðherra, óskaði Katrínu velfarnaðar í starfi er hann afhenti henni lyklana að Stjórnarráðinu. „Það fylgja auðvitað bara bestu mögulegu óskir. Hér er góður andi, gott starfsfólk, fín aðstaða til alls og nú er það bara undir okkur öllum sameiginlega komið að hrinda þessu í framkvæmd sem við erum búin að setja hér á blað. Ég er gríðarlega bjartsýnn og ánægður og glaður að sjá Katrínu koma hingað í hús,“ segir Bjarni.

Hann viðurkennir þó að það sé tregablandin tilfinning að yfirgefa forsætisráðuneytið og fara aftur í fjármálaráðuneytið. „En ég er spenntur fyrir verkefnunum fram undan og ég er líka spenntur fyrir því að koma í fjármálaráðuneytið, þar þekki ég ágætlega til verkefnanna en ekki síður til fólksins sem þar er, þannig að þegar öllu er á botninn hvolft er ég spenntur fyrir framhaldinu,“ segir Bjarni.

Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson við lyklaskiptin í Stjórnarráðinu í …
Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson við lyklaskiptin í Stjórnarráðinu í morgun. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert