Hlakkar til að halda kyndlinum á lofti

Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Björt Ólafsdóttir við lyklaskipti í umhverfisráðuneytinu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Björt Ólafsdóttir við lyklaskipti í umhverfisráðuneytinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er auðmjúkur gagnvart þessu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem nokkuð óvænt er orðinn umhverfisráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Guðmundur Ingi tók við lyklunum að skrifstofu ráðherra í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu af Björt Ólafsdóttur í dag. Hann kveðst spenntur að taka við nýju hlutverki og er fullur tilhlökkunar. „Ég ætla að reyna að gera mitt allra besta til þess að halda kyndlinum á lofti.“

Aðspurður segist Guðmundur ekki hafa átt von á því að enda sem umhverfisráðherra. „Alla veganna ekki með þessum hætti, það er alveg ljóst. Ég skal alveg vera hreinskilinn að ég hef alveg alla tíð getað hugsað mér að starfa að umhverfismálum á mjög víðum grundvelli, ég hef svo sem ekkert endilega verið að pæla í þessu, en ég meina af hverju ekki?“ segir Guðmundur.

Umhverfisvernd er Guðmundi mjög hugleikin en hann lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Landverndar til að gegna hlutverki umhverfisráðherra. Ýmis hitamál heyra undir málaflokk ráðuneytisins og má nefna virkjanamál og fiskeldi sem dæmi um þau mál sem nokkuð hefur verið deilt um. Hvernig hugnast nýjum ráðherra að takast á við þau málefni sem umhverfisráðherra?

„Mér hugnast það ágætlega. Ég held að þarna þurfi að fara að mikilli gát til þess að passa áhrifin á sérstaklega villta laxastofna og það þarf að vinna málið út frá því; að gæta að þeirri auðlind okkar þegar verið er að huga að þróun fiskeldis á Íslandi,“ svarar Guðmundur.

Huggun í því að fá stöndugan ráðherra í embættið

„Gangi þér vel, ég veit að þú munt standa þig vel. Þú heldur líka á fjöreggi okkar allra og þú veist það manna best,“ sagði Björt Ólafsdóttir er hún afhenti Guðmundi lyklana að ráðuneytinu. „Stór dagur í lífi þínu, og í lífi okkar allra, að það sé kominn maður sem að ég veit að mun halda okkur fast við efnið í umhverfis- og náttúruverndarmálum og ég óska þér alls hins besta og mikils velfarnaðar.“

Líkt og aðrir fráfarandi ráðherrar sem í dag afhenda nýjum ráðherra lyklavöldin hefði Björt gjarnan viljað gegna embættinu áfram.

„Við vorum komin langt með mörg mál og búin að ljúka auðvitað nokkrum góðum og stórum áfangasigrum,“ segir Björt. „Það er huggun þó að hér sé kominn stöndugur ráðherra í mitt sæti og ég trúi því og treysti að hann haldi ótrauður áfram. Það þarf kjark og þor í þetta ráðuneyti fyrir allt Ísland og ég óska þess innilega að hann Guðmundur haldi þessu starfi áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka