Kostaði fjölskylduna fimm milljónir að koma til Íslands

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglumenn í flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum höfðu í vikunni afskipti af fimm manna fjölskyldu sem var að koma til landsins og kvaðst vera skilríkjalaus. Það reyndist ekki alls kostar rétt því á salerni í tollsal fann tollvörður rifin og blaut skilríki sem fólkið viðurkenndi þá að hafa hent.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu, að fjölskyldan hafi svo tjáð lögreglumanni að hún hafi keypt fölsuð vegabréf og aðstoð til að komast til Íslands á samtals rúmlega fimm milljónir króna. Fjölskyldan sótti um hæli við komuna til landsins.

Ennfremur segir í tilkynningu frá lögreglu, að í vikunni hafi þurft að lenda flugvél frá Turkish Airlines á Keflavíkurflugvelli vegna veikinda farþega um borð. Viðkomandi var fluttur til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert