María Rut Kristinsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður formanns Viðreisnar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Viðreisnar. María hefur meðal annars verið talskona Druslugöngunnar, setið í háskólaráði og var sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu.
María Rut lauk B.S-gráðu í sálfræði árið 2013 frá Háskóla Íslands og stundar nú MPA-nám við sama skóla. Samkvæmt tilkynningunni lætur María Rut af störfum sem sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, en þar hefur hún leitt samráðshóp ráðherra um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins síðastliðin tvö ár. Áður starfaði hún sem markaðsstjóri GOMOBILE og formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Hún var talskona Druslugöngunnar á árunum 2013-2015 þar sem hún lagði ríka áherslu á úrbætur í ofbeldismálum. Hún tók virkan þátt í stúdentapólitík þar sem hún sat m.a. í háskólaráði, jafnréttisnefnd HÍ og sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir skólann. Var hún tilnefnd af JCI Íslandi sem framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2014 fyrir afrek á sviði menntamála.
María gegndi embætti varaformanns Samtakana '78 árið 2015-2016 og er stofnandi Hinseginleikans, ásamt unnustu sinni. Hinseginleikinn er fræðsluvettvangur fyrir ungt fólk sem hefur það að markmiði að brjóta upp staðalmyndir og fjölga fyrirmyndum hinsegin fólks í samfélaginu. Verkefnið fékk heiðursviðurkenningu KYNÍS fyrir framúrskarandi starf á sviði kynfræðslu 2016. Þá er María einnig í skipulagsteymi rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, sem haldin er á Ísafirði ár hvert.
María Rut er fædd árið 1989 og er trúlofuð Ingileif Friðriksdóttur, laganema og fjölmiðlakonu og eiga þær soninn Þorgeir Atla, 10 ára.