María Rut ráðin aðstoðarmaður Þorgerðar

María Rut Kristinsdóttir, nýr aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.
María Rut Kristinsdóttir, nýr aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

María Rut Kristinsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður formanns Viðreisnar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Viðreisnar. María hefur meðal annars verið talskona Druslugöngunnar, setið í háskólaráði og var sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu.

María Rut lauk B.S-gráðu í sálfræði árið 2013 frá Háskóla Íslands og stundar nú MPA-nám við sama skóla. Samkvæmt tilkynningunni lætur María Rut af störfum sem sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, en þar hefur hún leitt samráðshóp ráðherra um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins síðastliðin tvö ár. Áður starfaði hún sem markaðsstjóri GOMOBILE og formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Hún var talskona Druslugöngunnar á árunum 2013-2015 þar sem hún lagði ríka áherslu á úrbætur í ofbeldismálum. Hún tók virkan þátt í stúdentapólitík þar sem hún sat m.a. í háskólaráði, jafnréttisnefnd HÍ og sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir skólann. Var hún tilnefnd af JCI Íslandi sem framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2014 fyrir afrek á sviði menntamála.

María gegndi embætti varaformanns Samtakana '78 árið 2015-2016 og er stofnandi Hinseginleikans, ásamt unnustu sinni. Hinseginleikinn er fræðsluvettvangur fyrir ungt fólk sem hefur það að markmiði að brjóta upp staðalmyndir og fjölga fyrirmyndum hinsegin fólks í samfélaginu. Verkefnið fékk heiðursviðurkenningu KYNÍS fyrir framúrskarandi starf á sviði kynfræðslu 2016. Þá er María einnig í skipulagsteymi rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, sem haldin er á Ísafirði ár hvert. 

María Rut er fædd árið 1989 og er trúlofuð Ingileif Friðriksdóttur, laganema og fjölmiðlakonu og eiga þær soninn Þorgeir Atla, 10 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka