Ríkisstjórnin boðar afnám bókaskatts

Með afnámi bókaskatts er vonast til að gróskan í bókaútgáfu …
Með afnámi bókaskatts er vonast til að gróskan í bókaútgáfu aukist. mbl.is/Eggert

Hin nýja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að afnema virðisaukaskatt á bækur. Hann er nú í neðra þrepi skattkerfisins, er 11%, en var 7% áður en hann var hækkaður árið 2014. Nýjar tölur Félags íslenskra bókaútgefenda, sem unnar eru upp úr tölum Hagstofu Íslands, sýna að 11% samdráttur varð í bóksölu árið 2016 frá fyrra ári. Alls hefur bóksala dregist saman um 31,32% frá árinu 2008. Samdráttur í veltu fyrstu fjóra mánuði þessa árs var 7,83%. Virðist því mega ætla að hækkun skattsins hafi haft umtalsverð neikvæð áhrif á bóksölu á skömmum tíma.

Það kemur í hlut hins nýja menntamálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, að mæla fyrir breytingunni. Hún var á síðasta þingi fyrsti flutningsmaður þverpólitísks frumvarps sama efnis og var forgöngumaður málsins á Alþingi.

75% bókanna íslenskar

„Bókaútgáfur eru einn af hornsteinum samfélagsins og gegna mikilvægu hlutverki sem menningarmiðlun,“ sagði í greinargerð með frumvarpi Lilju og meðflutningsmanna hennar. „Starfsemi þeirra hefur vissa sérstöðu sem atvinnugrein á heimsvísu. Í flestum tilvikum eru þær drifnar áfram af ástríðu og hugsjón. Tekjur af metsölubókum og sísölubókum, svo sem kennslubókum, eru gjarnan nýttar til að gefa út bækur sem eiga sér færri lesendur vísa. Íslensk bókaútgáfa hefur um alllangt skeið verið mjög öflug og fjölbreytileg.“

Fram kemur í greinargerðinni að hér á landi hafa verið gefnar út liðlega tvöfalt fleiri bækur en í nágrannalöndum okkar miðað við höfðatölu. Af um 1.500 bókum sem eru gefnar út hér á landi eru um 75% íslensk verk en um 25% þýdd. 

Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka