Sala á beinu flugi til þeirra þriggja borga í Rússlandi þar sem leikir Íslands á lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu fer fram í sumar er hafin hjá Icelandair. Eitt flug verður til hverrar borgar, Moskvu, Volgograd og Rostov.
Ísland er í riðli með Argentínu, Króatíu og Nígeríu á HM. Leikið verður við Argentínumenn í Moskvu 16. júní, við Nígeríumenn í Volgograd 22. júní og loks við Króatíu í Rostov 26. júní.
„Þessi mikli áhugi fer ekki fram hjá okkur og eftirspurnin er mikil. Eins og staðan er núna er mesti áhuginn á leiknum gegn Argentínu,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við mbl.is, en sá leikur fer fram eins og fyrr sagði í Moskvu.
Í tilkynningu segir að verðið sé frá 175 þúsund krónum.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun hvort boðið verði upp á fleiri flug ef það selst fljótt upp í þessar ferðir. Það mun koma í ljós þegar nær dregur, að sögn Guðjóns. Hann bendir á flugfélagið fljúgi til margra annarra borga í Evrópu sem fólk gæti einnig nýtt sér til að komast á HM.
Fjölmargar ferðaskrifstofur eru þegar farnar að skipuleggja ferðir á HM meðal annars Vita ferðir og Gaman ferðir. Ferð á einn leik Íslands á HM í Rússlandi næsta sumar, þar sem gisting í tvær til þrjár nætur, flug, rútuferðir og eftir atvikum leiðsögn er innifalin, gæti kostað á bilinu 200 til 250 þúsund krónur.