„Takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða fólki“

Gray Line gæti þurft að greiða um 440.00 krónur á …
Gray Line gæti þurft að greiða um 440.00 krónur á dag fyrir bílastæði við Keflavíkurflugvöll.

Hækka þarf verð hjá fyrirtækjum hópferðabíla um 30-50% til þess að koma til móts við gjaldtöku á bílastæðum við Leifsstöð. „Við erum ekki á móti því að greiða fyrir bílstæði við flugstöðina, það eru bara takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða fólki,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, í samtali við mbl.is.

Gætu þurft að greiða um 440 þúsund á dag

Stærri bifreiðar gætu þurft að greiða svipað gjald á dag og þau greiða fyrir mánuðinn í dag sem er 450.000 krónur. „Það var ekkert haft samráð við fyrirtæki hópferða um þessa gjaldtöku en við vissum af henni,“ segir Þórir og bendi á að Isavia hafi haft samráð við leigubílstjóra og breytt gjaldskrá eftir athugasemdir frá þeim. 

Reiknað er með að áætlunarferðir Gray Line verði um 20 til 25 ferðir á dag frá flugstöðinni frá 1. mars.  „Þá þurfum við að borga í kringum 440 þúsund á dag eða jafn mikið og við borgum fyrir heilan mánuð í dag fyrir að vera upp við flugstöðina.“ En þau bílastæði sem taka á gjald fyrir frá 1. mars eru töluvert lengra frá.

Þórir telur að verð hjá hópferðabílum sem sækja farþega í flugstöðina hækki um 30-50%. „Að tilkynna þetta með 3 mánaða fyrirvara þegar menn eru búnir að gefa út verð fyrir næsta ár er náttúrulega ósvífin framkoma.“

Ríkið þurfi að setja reglur um bílastæðagjöld

Þá hefur Þórir áhyggjur af því hvort þessi gjaldataka muni áhrif áhrif á önnur bílastæði á landinu. „Ef ríkisfyrirtækið Isavia kemst upp með svona gjaldskrá á bílastæði við flugstöðina hvernig verður gjaldskrá vítt og breitt um landið?“ spyr Þórir og bætir við að honum þyki nauðsynlegt að ríkið setji reglur um að hvað teljist eðlilegt bílastæðagjald.

Smærri hóp­ferðabif­reiðar með 19 eða færri sæti greiða 7.900 krón­ur og stærri bif­reiðar með 20 sæti og yfir greiða 19.900 krón­ur. Þá skiptir ekki máli hversu lengi þú stoppar. „Til samanburðar er þetta gjald 3.000 krónur á Þingvöllum,“ segir Þórir og á það við fyrir stærri bifreiðar.

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray line, er ósáttur við fyrirhugaða gjaldskrá …
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray line, er ósáttur við fyrirhugaða gjaldskrá Isavia.

Gjaldtakan liður í að efla tekjustofn

Í tilkynningu fá Isavia segir að gjaldtakan sé liður í því að efla tekjustofna til þess að „standa straum af stærsta fram­kvæmda­tíma­bili í sögu Kefla­vík­ur­flug­vall­ar.“ Þórir segist velta því fyrir sér hvernig framkvæmdir sé átt við.

 „Það sem liggur alveg fyrir og þarf nauðsynlega að fara í er að bæta aðstöðuna inni í flugstöðinni, sérstaklega sem snýr að tengifarþegum til þess að geta eflt Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll milli Evrópu og Ameríku en á að láta farþega sem fara til Reykjavíkur greiða það niður?“

Gjaldskráin hefði þurft að liggja fyrir

Hóp­bíl­ar og Kynn­is­ferðir áttu hæstu til­boð sem bár­ust í útboði Isa­via á aðstöðu fyr­ir hóp­ferðabif­reiða við Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar. Alls bár­ust þrjú til­boð en Gray Line átti lægsta til­boðið.

Þórir segir útboðið hafa verið þrískipt. Í fyrsta lagi átti að greiða 450 þúsund á mánuði fyrir bílastæði alveg upp við flugstöð, þá átti að greiða vissa upphæð á mánuði fyrir bás inni í flugstöðinni og í síðasta lagi átti að bjóða ákveðna upphæð fyrir það að hafa betri aðgang að viðskiptavinum flugstöðvarinnar.

„Við gerum okkar áætlanir og  göngum út frá því að við séum að greiða sambærilegt fyrir bílastæði sem er þarna á fjarstæðunum, eins og greitt er fyrir flugrútuna í dag. En maður átti aldrei von á því að við þyrftum að fara að borga uppbyggingu í flugstöðinni.“ Þórir segir mögulegt að fleiri kynnu að hafa hugsað sig um og tekið þátt í uppboðinu ef gjaldskráin hefði legið fyrir fyrirfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert