„Það verður loftbrú milli Íslands og Rússlands,“ segir Skúli Mogensen forstjóri WOW air. Eftir helgina mun flugfélagið hefja sölu á ferðum til allra þriggja borganna þar sem íslenska karlalandsliðið mun keppa á á lokakeppni heimsmeistaramótsins í sumar. Borgirnar þrjár eru Moskva, Volgograd og Rostov.
Unnið er að því að taka á móti pöntunum á flugi, að sögn Skúla. Eftir helgi kemur í ljós hversu mörg flugin verða.
Icelandair hóf sölu á einu flugi til borganna þriggja í gær. Flugið til Moskvu seldist upp á um klukkutíma en Ísland mætir Argentínu í fyrsta leik liðsins á mótinu 16. júní. „Við áttuðum okkur á því að þegar búið var að draga í riðla að flestir vildu sjá fyrsta leikinn, bæði er það staðsetningin og mótherjinn,“ segir Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair.
Eftir helgina verður það kannað hvort boðið verður upp á fleiri flugferðir til Moskvu, að sögn Guðjóns. Enn eru sæti laus í hin flugin. Flugmiði með tveggja nátta gistingu í tvíbýli kostar 185 þúsund fyrir utan miða á leikinn sjálfan en þeir fara í sölu 5. desember.