„Byrjunin á einhverju stórkostlegu“

Steinunn Valdís í Silfrinu í morgun.
Steinunn Valdís í Silfrinu í morgun. Ljósmynd/Skjáskot af vef RÚV

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, komst við í sjónvarpsþættinum Silfrið á RÚV, þegar hún lýsti ofbeldi sem hún varð fyrir fyrir tæplega átta árum síðan.

„Ég hugsa stundum til baka og kemst að þeirri niðurstöðu að kannski hafi ég ekki brugðist rétt við á sínum tíma vegna þess að það ofbeldi átti ekkert að líðast. Ég sat undir því að þekktir nafngreindir menn hvöttu aðra karlmenn til að fara heim til mín og nauðga mér,” sagði hún en það gerðu þeir vegna starfa hennar í stjórnmálum, sérstaklega í borgarstjórn.

„Ég hugsa stundum hvernig samfélagið hefði brugðist við og hvernig lögreglan hefði brugðist við ef það hefði komið ákall frá þessum mönnum um að fara heim til Dags B. Eggertssonar og nauðga honum. Ég held að það hefði verið brugðist öðruvísi við.”

Hún sagði #metoo-byltinguna hafa verið ákveðna hreinsun fyrir sig og losun. Taldi hún að margar konur séu í sömu sporum.

„Mínir gerendur hafa verið nafngreindir,” sagði hún en taldi ekkert að því þótt aðrar konur kjósi að gera það ekki.

„Ég held að þetta sé byrjunin á einhverju stórkostlegu,” bætti hún við og þakkaði þeim konum sem hófu #metoo-byltinguna. „Ég fer næstum því bara að gráta, þetta er bara þannig.”

Steinunn skrifaði um ofbeldið þegar á fimmta hundrað stjórnmálakvenna gáfu út yfirlýsingu og kröfðust þess að karlar tækju ábyrgð og að stjórnmálaflokkar taki af festu á stöðu mála varðandi kynferðisofbeldi og áreitni í íslenskum stjórnmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert