„Þetta var með eindæmum. Ég veit ekki til þess að aðrir stjórnmálamenn hafi þurft að sæta öðru eins ofbeldi og hún,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, vinkona Steinunnar Valdísar Óskarsdóttir, sem er fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur og þingmaður, um ofbeldið sem Steinunn varð fyrir fyrir nokkrum árum.
Í sjónvarpsþættinum Silfrinu á RÚV í dag lýsti Steinunn ofbeldi sem hún varð fyrir í störfum sínum sem stjórnmálakona. Árið 2010 gerðu karlmenn aðsúg að henni og stóðu fyrir utan heimili hennar í margar vikur og kröfðust afsagnar hennar. Henni var einnig hótað nauðgun. Þetta var í apríl og Steinunn sagði af sér þingmennsku í lok maí sama ár.
„Ég er öskureið að rifja þetta upp. Dagurinn hefur farið í það. Það var svo ömurlegt að horfa upp á þetta. Sérstaklega því þetta snerti alla fjölskylduna hennar og ung dóttir hennar þurfti að brjóta sér leið heim til sín fram hjá þessum mönnum,“ segir Anna Sigrún.
Hún bendir á að á þessum tíma hafi sér og fleirum þótt samfélagið vera hálflamað og sinnulaust gagnvart þessu. Lögreglan hafi verið kölluð til nokkrum sinnum en á þeim tíma vildi Steinunn síður hafa lögregluna mikið við heimili sitt, það var nóg samt. Anna Sigrún bendir á að fyrst og fremst hafi hún verið að hugsa um fjölskyldu sína og friðhelgi heimilisins.
Hins vegar hafi lögreglan komið á svæðið og stuggað við mönnunum en þar sem þeir voru ekki lengur inni í garðinum hjá henni heldur töldu sig vera í almannarými hafi lögreglan lítið getað aðhafst. „Einhvern veginn voru bjargráðin ekki mikil,“ segir Anna Sigrún.
„Það var einbeittur vilji þessara manna að brjóta hana niður því þetta varði í langan tíma, var stöðugt og jaðraði við andlegar pyntingar finnst mér. Þeir voru greinilega búnir að finna sér fórnarlamb og hún átti ekki að sleppa. Þetta var þrúgandi og hafði niðurbrjótandi áhrif,“ segir hún.
Á þessum tíma hafi komið hópur kvenna til að standa með Steinunni og það kom jafnvel til stimpinga milli þeirra og umsátursmanna. Þegar mennirnir voru spurðir hvers vegna þeir hefðu kosið að haga sér með þessum hætti gagnvart Steinunni fengust þau svör „að hún væri kona sem ætti barn, líklegra að hún léti undan þrýstingi“.
Anna Sigrún segir að stundum hafi Steinunn þurft að koma út og taka við drasli sem henni var rétt og ýmislegt var sett inn um lúguna á heimili hennar. „Hún mátti bara sitja undir þessu.“
Uppgefin ástæða fyrir háværum kröfum karlmannanna um afsögn Steinunnar var sú að hún hafði þegið styrk fyrir kosningabaráttu sína meðal annars frá Baugi auk annarra fyrirtækja. Anna Sigrún bendir á að á sama tíma hafi fleiri stjórnmálamenn einnig þegið styrk frá fyrirtækjunum og sá styrkur hafi jafnvel verið hærri.
„Einhverra hluta vegna var ákveðið að velja hana úr hópnum og hrekja hana frá völdum en ekki hina stjórnmálamennina,“ segir Anna Sigrún. Hún bendir á að einhverjir hafi fordæmt þetta opinberlega en sú gagnrýni hafi ekki farið hátt í samfélaginu.
Steinunni var einnig hótað nauðgun, það gerði meðal annars Gillzenegger. Steinunn barðist fyrir því, eins og fleiri á þessum tíma, að svokölluðum kampavínsstöðum yrði lokað í borginni. Anna Sigrún bendir á að þótt umsátrið hafi fengið merkilega litla gagnrýni þá vakti þetta enn síður sterk viðbrögð í samfélaginu. Hún furðar sig á því.
Mennirnir sem stóðu fyrir utan heimili hennar eru nafnkunnir í samfélaginu. „Þetta er ekki búið, þetta verður að gera upp,“ segir Anna Sigrún.