Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, segist skammast sín fyrir að hafa ekki gert meira á sínum tíma til að standa með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrrverandi þingmanni Samfylkingarinnar.
Steinunn Valdís rifjaði upp í þættinum Silfrinu á RÚV í gær ofbeldi sem hún varð fyrir fyrir tæpum átta árum er hópur fólks stóð fyrir mótmælum utan við heimili hennar. Er hún fjallaði um málið á facebooksíðu sinni árið 2013 sagði hún Birgittu hafa hvatt fólk til að fara að heimili sínu og krefjast afsagnar. Sagðist Steinnunn Valdís hafa spurt þingflokk Hreyfingarinnar út í málið og fengið svarið: „Segðu bara af þér.“
„Forstjóri Matís, Sveinn Margeirsson, og bræður hans hlaupagarpar voru fyrir framan gluggana hjá mér í þrjár vikur. Þar var einnig Björn Þorri Viktorsson lögmaður kvöld eftir kvöld vel klæddur í kraftgalla með marga af sínum skjólstæðingum. Til viðbótar voru margir skjólstæðingar Útvarps Sögu o.fl.,“ sagði Steinunn Valdís í færslu um málið á Facebook á sínum tíma.
Birgitta tekur málið upp á facebooksíðu sinni í dag. „Ég vil halda því til haga að ég hef ALLTAF verið því mótfallin að fólk mótmæli fyrir utan heimili fólks. Ég lét þá sem stóðu fyrir því heyra það á sínum tíma. Það er ekkert sem réttlætir slíka aðför að friðhelgi fólks, alveg sama hvar í flokki það stendur. Á Íslandi er aðgengi að stjórnmálafólki með því besta sem gerist í heiminum vegna hefða og fámennis,“ segir Birgitta í færslu sinni.
Sjálf hafi hún lent í því að fá yfir mig morðhótanir reglulega og verið talin réttdræp. „Á mig var t.d. ráðist í matvöruverslun á þann veg að eldri kona klessti á mig hressilega og viljandi með innkaupakerru sinni og hrópaði að mér níð í viðurvist yngri sonar míns, en það er í engu sambærilegt við það sem Steinunn Valdís varð fyrir og er sú aðför að henni smánarblettur á stjórnmálasögu okkar.
Ég eins og fleiri skammast mín fyrir að hafa ekki gert meira til að standa með henni á sínum tíma og bið hana afsökunar á því,“ segir Birgitta.