Ekki fjarstæðukennt að greiða bara sekt

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur staðfesti í síðustu viku úrskurð Héraðsdóms Norðurlands vestra frá því í nóvember þar sem máli á hendur ökumanni, sem ákærður var fyrir umferðarlagabrot vegna hraðaksturs, var vísað frá.

Málavextir voru þeir að í mars á þessu ári var maðurinn stöðvaður af lögreglunni á Norðurlandi fyrir að hafa ekið á 150 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði var 90 kílómetrar á klukkustund. Í skýrslu lögreglu sem rituð var af því tilefni kemur fram að hann hafi játað brot sitt og greitt sekt upp á 97.500 krónur á vettvangi eftir að lögregla bauð honum að ganga frá málinu með þeim hætti.

Nokkrum dögum síðar barst manninum hins vegar sektargerð þar sem honum var tilkynnt að lögreglustjóri hefði fellt úr gildi ætluð málalok, ásamt því að endurgreiða sektina inn á bankareikning hans. Var manninum boðið að ljúka málinu með greiðslu sektar ásamt því að sæta sviptingu ökuréttar í einn mánuð. Gekkst hann ekki undir þau málalok og var ákæra því gefin út í málinu í lok maí.

Af hálfu ákæruvaldsins er byggt á ákvæði í lögum um meðferð sakamála um að endurupptaka máls sé heimil séu málalok fjarstæðukennd. Taldi ákæruvaldið það fjarstæðukennt og með öllu óásættanlegt að maðurinn hefði sloppið við sviptingu ökuréttar.

Héraðsdómur Norðurlands vestra komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það eitt að maðurinn sætti ekki ökuleyfissviptingu í mánuð félli ekki undir fjarstæðukennd málalok. Þar sem málinu hafi verið lokið og ekki skilyrði fyrir endurupptöku var málinu vísað frá og fellur sakarkostnaður á ríkissjóð.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms að öllu leyti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert