Enn óljóst með skipan nefnda

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnarandstöðuflokkarnir hittust í morgun og ræddu saman um skipan nefnda á Alþingi.

„Menn voru að taka almennt stöðuna og samræma sig,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, en næsti fundur um málið verður á miðvikudaginn. Þá munu formenn flokkanna hittast og ræða um nefndarmál.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögu um að stjórnarandstaðan fari með forystu í þremur þingnefndum, eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd.

Að sögn Gunnars Braga liggur ekki ljóst fyrir hvaða flokkur mun gegna formennsku í hvaða nefnd. Flokkarnir sem um ræðir eru Miðflokkurinn, Píratar og Samfylkingin, stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir.

Áður hefur komið fram að Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, verður formaður fjárlaganefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert