Stjórnarandstöðuflokkarnir hittust í morgun og ræddu saman um skipan nefnda á Alþingi.
„Menn voru að taka almennt stöðuna og samræma sig,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, en næsti fundur um málið verður á miðvikudaginn. Þá munu formenn flokkanna hittast og ræða um nefndarmál.
Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögu um að stjórnarandstaðan fari með forystu í þremur þingnefndum, eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd.
Að sögn Gunnars Braga liggur ekki ljóst fyrir hvaða flokkur mun gegna formennsku í hvaða nefnd. Flokkarnir sem um ræðir eru Miðflokkurinn, Píratar og Samfylkingin, stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir.
Áður hefur komið fram að Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, verður formaður fjárlaganefndar.