„Fyrir mig var þetta frelsun“

Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

„Mig óraði ekki fyrir þessum viðbrögðum,“ segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrr­ver­andi þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og borgarstjóri, um þau viðbrögð sem hún hefur fengið í kjölfar viðtals í Silfrinu á RÚV í gær. Í viðtalinu lýsti Steinunn hótunum og of­beldi sem hún þurfti að þola er hún var í stjórnmálum. 

Frá því að viðtalið var birt í gær hefur Steinunn fengið hundruð skilaboða, m.a. í gegnum Facebook. Þá segir hún fólk jafnvel stoppa sig á förnum vegi. Þessi viðbrögð koma Steinunni mjög á óvart. „Fyrir mig var þetta frelsun og þetta er greinilega frelsun fyrir þúsundir annarra,“ segir hún. „Ég veit ekkert í hvaða farveg þetta fer, þetta mun finna sinn góða farveg. Ég er sannfærð um að það gerir það.“

Biðjast afsökunar

Meðal þeirra sem haft hafa samband við Steinunni er fólk sem vill biðjast afsökunar á sínum þætti í málinu. Í þeim hópi er m.a. fólk innan úr Samfylkingunni. Ekki er um gerendur ofbeldisins að ræða heldur fólk sem stóð hjá og hefur nú áttað sig á áhrifum þess aðgerðaleysis.

Fyr­ir tæp­um átta árum stóð hóp­ur karlmanna fyr­ir mót­mæl­um utan við heim­ili henn­ar dögum og vikum saman. Sagðist hún einnig hafa setið und­ir því að þekkt­ir nafn­greind­ir menn hvettu aðra karl­menn til að fara heim til hennar og nauðga henni. 

Undanfarnar vikur hafa hundruð kvenna á Íslandi og milljónir kvenna um allan heim sagt sögur af ofbeldi og áreitni sem þær hafa orðið fyrir í störfum sínum. Í þeim hópi eru tugir íslenskra stjórnmálakvenna sem birtu nýverið reynslusögur sínar opinberlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka