Vilja ekki að Ragnar verði formaður

Ragnar Þór Pétursson.
Ragnar Þór Pétursson.

Tveir frambjóðendur til varaformanns Kennarasambands Íslands, Halldóra Guðmundsdóttir og Þórunn Sif Böðvarsdóttir, lýstu því yfir á kynningarfundi frambjóðenda í kvöld að þeir ætluðu að draga framboð sín til baka ef Ragnar Þór Pétursson yrði formaður sambandsins. Ragnar var kjörinn formaður í síðasta mánuði og tekur við starfinu í apríl.

Frambjóðendurnir telja að trúverðugleiki Ragnars sé í húfi vegna ásakana um kynferðisbrot gegn barni. Fjallað er um málið á fréttavef Ríkisútvarpsins og vísað í viðtal sem Vísir.is birti um helgina við mann sem sakar Ragnar um að hafa sýnt sér klám þegar hann hafi unnið sem grunnskólakennari á Tálknafirði fyrir tveimur áratugum.

Fram kemur í fréttinni að Ragnar hafi ávallt neitað sök og athugun skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar á málinu fyrir fjórum árum hafi ekki leitt í ljós neitt saknæmt af hálfu Ragnars. Fjórir aðrir frambjóðendur til varaformanns hafa ekki dregið framboð sín til baka þar sem sekt Ragnars sé ekki sönnuð.

Þær Halldóra og Sif segjast reiðubúnar að endurskoða ákvörðun sína verði Ragnar ekki formaður KÍ. Segja þær málið snúast fyrst og fremst um trúverðugleika, til að mynda ef slík mál komi upp, en feli ekki í sér dóm um sekt eða sakleysi Ragnars.

Rafræn kosning fer fram dagana 7.-17. desember til varaformanns KÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka