Vilja sleppa erninum í reiðskemmu

Snorri með haförninn. Fuglinn var nokkuð máttfarinn þegar þeir handsömuðu …
Snorri með haförninn. Fuglinn var nokkuð máttfarinn þegar þeir handsömuðu hann, en hefur braggast mikið undanfarna daga og borðar vel. Ljósmynd/Snorri Rafnsson

„Hann lítur orðið mjög vel út og það er ekkert sem bendir til þess á þessu stigi að hann sé brotinn,“ segir Snapchat-stjarnan Snorri Rafnsson sem fangaði í síðustu viku haförn í nágrenni Ólafsvíkur, sem virst hafði máttfarinn undanfarnar vikur.

Snorri fangaði örninn á fimmtudaginn í síðustu viku með aðstoð föður síns, eftir að hafa fylgst með fuglinum síðustu fjór­ar vik­ur. Snorri, sem einnig er þekkt­ur sem Varg­ur­inn og birtir Snapchat innslög undir því nafni, hafði áður reynt að nálg­ast fuglinn en aldrei orðið ágengt fyrr en á fimmtu­dag­inn þegar þeim tókst að hand­sama hann.

Frá þeim tíma hefur fuglinn verið í búri hjá feðgunum og verið í veislufæði hjá Snorra þar sem hann hefur m.a. fengið skarfabringur og lifur. Snorri er at­vinnu­veiðimaður og býr þar með bet­ur en flest­ir að alls kon­ar villi­bráð sem hafern­ir eru hrifn­ir af.

Í dag kom síðan Hjalti Viðarsson, dýralæknir í Stykkishólmi, og skoðaði fuglinn, en Hjalti hefur gert nokkuð af því að skoða fugla. „Örninn var alveg skoðaður frá A-Ö og það sést ekkert á vængjunum,“ segir Snorri. „Það er kominn mikill kraftur í hann,“ bætir hann við og segir mikla breytingu á haferninum frá því að þeir handsömuðu hann.

Snorri og faðir hans héldu erninum á meðan Hjalti skoðaði hann og hefur Snorri birt innslag á Snapchat af skoðuninni. Ekkert benti hins vegar til þess að örninn væri brotinn, né heldur fann Hjalti nein merki um grút á honum.

Vilja GPS-merkja örninn

„Nú er planið að gefa honum ró og næði og byggja upp kraftinn með því að gefa honum nóg að borða. Síðan ætlum við að sjá hvernig hann er í hreyfingum þegar hann byrjar að fljúga.“

Flugið hjá fuglinum ætli þeir að skoða með því að sleppa honum í stórri reiðskemmu skammt frá og sjá hvernig hann hreyfir sig og segir Snorri nauðsynlegt fyrir dýralækninn að fylgjast með honum á flugi til að geta kveðið upp úrskurð sinn.

Sjálfur er hann nokkuð bjartsýnn á framhaldið, enda borði fuglinn vel og mikill kraftur er kominn í hann. „Við ætlum að leyfa honum að róast í dag eftir heimsókn dýralæknisins og síðan ætlum við að stækka búrið hjá honum á morgun þannig að hann geti hreyft sig um og kannski flögrað aðeins. Annars er ekki til nógu stórt búr fyrir svona fugl að mínu mati, nema heimurinn allur.“

Þeir feðgar gera ráð fyrir að prufa að sleppa fuglinum í reiðskemmunni fyrir vikulok og vonast til þess að hægt verði að sleppa honum í kjölfarið.

„Okkur pabba langar að safna fyrir því að GPS-merkja örninn áður en honum verður sleppt, þannig að ef hann reynist ekki góður veiðifugl og fer að hraka aftur að þá getum við fundið hann og endurmetið stöðuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert