Áhyggjufullur yfir ákvörðun Trumps

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur áhyggjur að ákvörðun Trumps muni …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur áhyggjur að ákvörðun Trumps muni hafa neikvæð áhrif á friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir ákvörðun Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels valda áhyggjum og ákveðnum vonbrigðum. 

„Þetta er skref sem bandarísk stjórnvöld hafa ekki áður stigið og Bandaríkjaforseti var ítrekað hvattur til að hverfa frá þessari fyrirætlan,“ sagði Guðlaugur í viðtali í tíufréttum Rúv. 

Frétt mbl.is: Segir Jerúsalem höfuðborg Ísraels

Guðlaugur sagði í færslu á Twitter-síðu sinni í kvöld að staða Jerúsalem sé nauðsynlegur liður í friðarviðræðum Ísraela og Palestínumanna. Hann segir það enga lausn að færa bandaríska sendiráðið til Jerúsalems.

„Jerúsalem hefur ávallt haft ákveðna stöðu í trúarlegu tilliti og staða borgarinnar verið mikilvægur liður í friðarviðræðum Ísraels og Palestínu og íslensk stjórnvöld styðja þær friðarviðræður heilshugar,“ sagði Guðlaugur í samtali við Rúv. 

Guðlaugur hefur áhyggjur að ákvörðun Trumps muni hafa neikvæð áhrif á friðarviðræðurnar. „Sömuleiðis er hætta á að upp úr sjóði þar sem stöðugleiki á þessu svæði er mjög viðkvæmur, þó að við vonum vitanlega að sú verði ekki raunin.“

Guðlaugur segir að það sé rík ástæða til að hafa áhyggjur af þróun mála á svæðinu. „Íslensk stjórnvöld hvetja til stillingar og að ekki verði stofnað til ofbeldis,“ sagði hann í samtali við Rúv. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka