Fjórir ráðherrar án aðstoðarmanna

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á Bessastöðum.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á Bessastöðum. mbl.is/Eggert

Fjórir ráðherrar sem komu nýir inn í ríkisstjórnina eiga enn eftir að ráða sér aðstoðarmenn fyrir komandi kjörtímabil.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félagsmála- og velferðarráðherra eiga öll eftir að ráða fólk sér til aðstoðar.

Mega ráða tvo aðstoðarmenn

Hver ráðherra má ekki velja sér fleiri en tvo aðstoðarmenn en heimilt er samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur. Ekki er skylt að auglýsa starf aðstoðarmanna og því geta ráðherrar valið þá sem þeir vilja hafa sér við hlið á meðan þeir starfa í ráðuneyti.

Nýju ráðherrarnir tóku við lyklum í sínum ráðuneytum föstudaginn 1. desember eftir að ríkisstjórnarsáttmálinn hafði verið samþykktur.

Þegar hefur komið fram að þær Lísa Kristjánsdóttir og Bergþóra Benediktsdóttir verða aðstoðarmenn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og að þau Svanhildur Hólm Valsdóttir og Páll Ásgeir Guðmundsson verða áfram aðstoðarmenn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. mbl.is/Eggert

Halda áfram störfum

Sömuleiðis heldur Ólafur Teitur Guðnason áfram sem aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur , ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Laufey Rún Ketilsdóttir verður Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra áfram til halds og trausts.

Borgar Þór Einarsson heldur jafnframt áfram að aðstoða Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson mun njóta aðstoðar Ingveldar Sæmundsdóttur sem samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.

Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir hefur aðstoðað Kristján Þór Júlíusson í ráðherratíð hans en óljóst er hvort hún heldur áfram.

Yfir ein milljón í mánaðarlaun

Laun aðstoðarmanna ráðherra eru ákvörðuð samkvæmt ákvörðun kjararáðs um kjör skrifstofustjóra í ráðuneyti. Miðað við síðustu hækkun kjararáðs á þeim launum fá aðstoðarmenn ráðherra tæpar 1,2 milljónir króna í mánaðarlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert