Kosning er hafin á meðal flugvirkja hjá Icelandair um vinnustöðvun. Kosningin mun standa yfir í 48 klukkustundir og er niðurstaðan væntanleg á föstudaginn.
Þetta staðfestir Gunnar R. Jónsson, varaformaður Flugvirkjafélags Íslands.
Sent hefur verið bréf til ríkissáttasemjara um kosninguna en ákveðið var að efna til hennar á stjórnarfundi Flugvirkjafélags Íslands í gær.
Spurður hvenær verkfall myndi hefjast ef vinnustöðvun verður samþykkt segir Gunnar að væntanlega yrði það fyrir áramót. Ekkert hafi þó verið ákveðið í þeim efnum.
Samningar flugvirkja við Icelandair losnuðu 31. ágúst og var kjaraviðræðunum vísað til ríkissáttasemjara 8. september.
Síðan þá hefur verið fundað margsinnis, án árangurs. Níundi sáttafundur flugvirkja og Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Icelandair, fór fram á mánudaginn.
Alls starfa 280 flugvirkjar hjá Icelandair og í heildina eru rúmlega 500 flugvirkjar í Flugvirkjafélagi Íslands.