Stjórn KÍ tekur ekki afstöðu í máli Ragnars

Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands.
Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Kennarasambands Íslands segist ekki geta og muni ekki taka afstöðu í máli nýkjörins formanns KÍ; Ragnars Þórs Péturssonar. Hann hefur verið sakaður um að hafa sýnt nemanda sem hann kenndi fyrir 20 árum klámefni.

Tveir fram­bjóðend­ur til vara­for­manns Kenn­ara­sam­bands Íslands, Hall­dóra Guðmunds­dótt­ir og Þór­unn Sif Böðvars­dótt­ir, lýstu því yfir á kynn­ing­ar­fundi fram­bjóðenda á mánudagskvöld að þeir ætluðu að draga fram­boð sín til baka ef Ragn­ar yrði formaður sam­bands­ins. Ragn­ar var kjör­inn formaður í síðasta mánuði og tek­ur við starf­inu í apríl.

Stjórn Kí segir að félagsmenn velji sér forystu með lýðræðislegum hætti og valdið sé því í höndum félagsmanna. 

„Mikilvægt er að þeir einstaklingar, sem veljast til forystu, njóti trausts og trúverðugleika, jafnt innan KÍ sem og í samfélaginu öllu,“ segir meðal annars í yfirlýsingu KÍ.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Um liðna helgi komu fram alvarlegar ásakanir á hendur nýkjörnum formanni KÍ.

Stjórn KÍ getur ekki tekið og mun ekki taka afstöðu í því máli. Stjórninni ber ávallt að gæta hlutleysis í slíkum málum enda annarra lögboðinna aðila að fara með þau.

Félagsmenn KÍ velja sér forystu með lýðræðislegum hætti, valdið er í höndum félagsmanna KÍ.

Mikilvægt er að þeir einstaklingar, sem veljast til forystu, njóti trausts og trúverðugleika, jafnt innan KÍ sem og í samfélaginu öllu.

Nýverið sendi Kennarasambandið frá sér yfirlýsingu, ásamt ASÍ, BSRB og BHM, þar sem kallað er eftir að atvinnurekendur og stjórnvöld axli ábyrgð og efli aðgerðir til að útrýma kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í yfirlýsingunni segir jafnframt að samtök launafólks standi þétt að baki þolendum og tryggja verði að á þá sé hlustað.“ 

Fyrir hönd stjórnar Kennarasambands Íslands,
Þórður Á. Hjaltested, formaður KÍ

Samþykkt á stjórnarfundi 5. desember 2017.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert